Dagur með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Arnþór

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur greinst með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm sem skerðir hreyfigetu og getur lagst á líffæri eins og augun og hjartalokur. Hann hefur hafið sterka lyfjameðferð sem hann gæti þurft að vera í næstu tvö árin. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hann í Fréttablaðinu í dag. 

Sjúkdómurinn kallast fylgigigt og vegna hans gengur Dagur nú við staf. Sjúkdóminn segir hann geta lagst á slímhúð alls staðar í líkamanum; í liðum, augum, hjartalokum og í meltingarvegi. Hann segir fylgigigt sjaldgæfan sjúkdóm sem komi í kjölfar sýkinga en hann fékk sýkingu í kviðarholið síðasta haust. Hann meiddi sig svo á fæti í ferð sinni á HM í Rússlandi og hélt í fyrstu að hann væri fótbrotinn en annað kom á daginn.

„Það er þá bara nýr veruleiki sem ég þarf að taka inn,“ segir Dagur við Fréttablaðið. Hann sprautar sig nú í lærið með lyfjum sem notuð eru til að meðhöndla krabbamein. 

Dagur segist ekki viss um áhrifin sem sjúkdómurinn og meðferðin muni hafa á hans starf en segist ekki á leiðinni úr borgarmálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert