Framkvæmdir við Geysissvæðið taka á sig mynd

Búið er að setja möl á gönguleiðina upp Laugafellið fyrir …
Búið er að setja möl á gönguleiðina upp Laugafellið fyrir ofan Geysissvæðið. Landvörður segist búast við að stígakerfið verði klárt í sumar. mbl.is/Þorsteinn

Framkvæmdir við Geysissvæðið eru farnar að taka á sig mynd, en unnið er að uppbyggingu göngustígakerfis upp á Laugafell fyrir ofan hverasvæðið. Áformað er að ljúka því verki nú í sumar, en í kjölfarið bíða önnur verkefni við að taka svæðið allt í gegn.

Valdimar Kristjánsson, yfirlandvörður hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við mbl.is að í gegnum tíðina hafi mikið af villistígum myndast upp á fellið, sérstaklega með vaxandi ferðamannastraumi. „Fellið var farið að láta á sjá,“ segir hann og bætir við að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða. „Nú erum við að búa til gott stígakerfi og útsýnispalla þannig að fólk haldi sig á einum stíg.“

Með breytingunum verður bæði hægt að ganga frá tjaldsvæðinu upp á Laugafellið og er sú tenging komin að sögn Valdimars. Þá munu ferðamenn geta gengið upp beint frá Geysissvæðinu hjá Konungshver, en nú er unnið að þeirri tengingu.

Valdimar segir að hann geri ráð fyrir því að þessi áfangi klárist í sumar. Á hann þar við að klára stígakerfið. Enn á eftir að bjóða út vinnuna við útsýnispallana, en hann á von á að það verði mjög fljótlega. Eins og sést á meðfylgjandi myndum hefur möl verið sett í göngustíginn, en einnig á að setja fínna efni ofan á. Þá verði einhver þrep hlaðin. Segir Valdimar að áhersla sé lögð á að láta þetta falla sem best inn í umhverfið.

Séð yfir Geysissvæðið ofan af Laugafelli.
Séð yfir Geysissvæðið ofan af Laugafelli. mbl.is/Þorsteinn

Fyrir neðan Laugafell, á Geysissvæðinu sjálfu, er svo horft til þess að fara í meiri framkvæmdir á næstu árum að sögn Valdimars. Enn á eftir að klára kaup ríkisins á Geysissvæðinu á eignarhlut sameigenda sem ríkið keypti í október 2016, en deilt var um kaupverðið og fór ríkið í byrjun árs fram á yfirverðmat sem yrði bindandi.

„Það verður vonandi hægt að fara fljótlega í framkvæmdir innan svæðisins,“ segir Valdimar og bætir við að gaman verði að sjá hvernig það muni líta út að nokkrum árum liðnum. Segir hann að með þeim framkvæmdum verði í fyrsta lagi stýring um svæðið bætt til muna og það gert aðgengilegra. Þá verði öryggi bætt, þó sá partur sé í nokkuð góðu lagi í dag.

Ofan á Laugafelli.
Ofan á Laugafelli. mbl.is/Þorsteinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert