Í gæsluvarðhald til mánudags

Karlmaður sem handtekinn var á Svalbarðseyri í gærmorgun var um hádegi í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudags. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra fór var fram á gæsluvarðhald yfir manninum í morgun og féllst Héraðsdómur Norðurlands eystra á gæsluvarðhaldskröfuna.

Lög­regl­unni barst til­kynn­ing um klukk­an þrjú í fyrrinótt um mann á Sval­b­arðseyri sem hefði sést hand­leika vopn á al­manna­færi. Vopnaðir lög­reglu­menn fóru frá Ak­ur­eyri til að huga að þessu.

Eft­ir nokkra rann­sókn­ar­vinnu bár­ust bönd­in að húsi í þorp­inu og reynd­ist maður­inn, sem til­kynnt var um, vera þar. Hann var í ann­ar­legu ástandi en sýndi ekki mót­spyrnu og fannst vopnið í fór­um hans. Hann var fluttur í fangageymslu en í gær hafði enn ekki tekist að yfirheyra hann.

Rannsókn málsins leiddi í ljós að hann ógnaði að minnsta kosti tveimur mönnum með svokallaðri pinnabyssu, skammbyssu notuð til að aflífa stórgripi. Byssuna er hann grunaður um að hafa tekið ófrjálsri hendi í húsi á Svalbarðseyri. Maðurinn, sem er á fertugsaldri, er einnig grunaður um önnur þjófnaðarbrot og eru þau mál til rannsóknar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert