Meðalhitinn í Reykjavík 9,9 stig

Í næstu viku er enn á ný spáð kólnandi veðri.
Í næstu viku er enn á ný spáð kólnandi veðri. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Enn eru litlar breytingar á veðurlagi og tölur fyrstu 20 daga júlímánaðar því svipaðar að eðli og verið hefur nú um langa hríð. Meðalhiti í Reykjavík þessa 20 daga er 9,9 stig. Það er 0,6 stigum neðan meðaltals áranna 1961-1990, en 2,0 neðan meðaltals sömu daga síðustu tíu ára, skrifar Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggsíðu sína í morgun.

Hann segir hitann þessa daga í neðsta sæti á öldinni, þó ómarktækt neðar en var 2013. „Á langa listanum er hitinn í 121. til 122. sæti af 144. Hlýjastir voru fyrstu 20 dagar mánaðarins árið 2009, meðalhiti var þá 13,5 stig, en kaldastir voru þeir 1885, meðalhiti 8,2 stig,“ skrifar Trausti.

Á Akureyri stendur meðalhitinn nú í 11,2 stigum, 0,8 stigum ofan meðaltals 1961-1990, en 0,3 ofan meðaltals síðustu tíu ára. Hiti er almennt ofan meðallags um landið austanvert, mesta jákvæða vikið er nú á Vatnsskarði eystra, +2,2 stig, en mest er neikvæða vikið á Hraunsmúla í Staðarsveit, -2,3 stig og -2,2 á Bláfeldi.

Úrkoma hefur mælst 43,3 mm í Reykjavík, um fimmtung ofan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoma það sem af er mánuði mælst 37,1 mm og vantar ekki mikið upp á tvöfalda meðalúrkomu, skrifar Trausti.

Trausti segir fáar sólskinsstundir hafa mælst í Reykjavík, aðeins 56,0, um og innan við helmingur meðallags, í 100. sæti af 108 á samanburðarlista. Sólskinsstundir fyrstu 20 daga júlímánaðar voru flestar 1957, 201,4, en fæstar 1921, 28,6 og 28,7 sömu daga 1926.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert