Slá skjaldborg um fæðingardeildina

Samstöðufundirnir hefjast klukkan 12 á hádegi.
Samstöðufundirnir hefjast klukkan 12 á hádegi. Kristinn Magnússon

Boðað hefur verið til samstöðufundar með ljósmæðrum við fæðingardeild Landspítalans og á Akureyri klukkan tólf á hádegi á morgun. Að fundinum stendur stuðningshópur ljósmæðra sem hefur þegar haldið á annan tug mótmælafunda. Oddný Arnarsdóttir, einn aðstandenda hópsins, segir að ákveðið hafi verið að fara nýja leið á morgun. Ekki sé um skipulagðan mótmælafund að ræða, með formlegri dagskrá eða ávörpum, heldur sé einungis ætlunin að veita táknrænan stuðning.

Fundargestir ætla að krækja saman höndum utan um fæðingardeildina og segist Oddný vona að hópurinn nái hringinn um húsið. Hún hvetur hún fólk af landsbyggðinni, til að mynda Akranesi, Selfossi og Keflavík, þar sem einnig eru fæðingardeildir, til að taka þátt í samskonar aðgerðum.

Oddný er sjálf ólétt að sínu öðru barni og til stendur að gangsetja hana í næstu viku. Hún segir andrúmsloftið á spítalanum annað en þegar hún var síðast ólétt. „Ég finn fyrir miklu meiri kvíða. Það er óvissuástand og það er óþægilegt.“

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, sagði í samtali við mbl.is í gær að fleiri konur væru gangsettar þessa dagana en í venjulegri tíð. Andrúmsloftið á fæðingardeildum sé þrungið spennu og stressi og það hafi ekki aðeins áhrif á ljósmæður heldur einnig tilvonandi mæður. „Við konur þurfum að vera í umhverfi þar sem við upplifum okkur öruggar til að fæðing fari af stað,“ segir hún. Við ástand eins og það sem nú ríkir fari náttúrulegar fæðingar síður af stað og á móti fjölgi þeim konum sem þarf að gangsetja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert