Umferðarslys á Þingvallavegi

Fjórir sjúkrabílar voru sendir á vettvang.
Fjórir sjúkrabílar voru sendir á vettvang. mbl.is/Eggert

Umferðarslys varð á Þingvallavegi, við Æsustaði í Mosfellsdal, laust fyrir klukkan 16 í dag, er tveir jeppar rákust saman. Þrír voru fluttir á slysadeild, þar af einn alvarlega slasaður.

Annar bíllinn kastaðist langt út fyrir veg og ofan í skurð við áreksturinn. Slökkviliðið sendi fjóra sjúkrabíla á vettvang, auk tveggja dælubíla.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu þurfti að beita klippum við að ná einni eldri manneskju út úr ökutæki sínu. Sú er mikið slösuð, en tveir til viðbótar hafa verið fluttir á slysadeild, minna slasaðir.

Uppfært kl. 17.54: Tilkynning hefur borist frá lögreglu um að störfum á vettvangi sé að ljúka og að umferð verði senn hleypt á veginn. Lögreglan vill koma á framfæri kæru þakklæti til vegfarenda fyrir tillitssemina og skilninginn.

mbl.is