Eineltismenning jafnvel ríkt lengi

Fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalistaflokks segja sterkar vísbendingar til staðar …
Fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalistaflokks segja sterkar vísbendingar til staðar um eineltismenningu innan Ráðhúss Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins í borgarstjórn telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsi Reykjavíkur ríki eineltismenning og að hún hafi jafnvel ríkt lengi. Þetta kemur fram í bókun þeirra frá fundi borgarráðs á fimmtudag.

Á fundinum var lagður fram dómur Héraðdóms Reykjavíkur í máli gegn Reykjavíkurborg, en með dóminum var felld úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra síðasta sumar. Auk þess var borginni gert að greiða fjármálastjóranum fyrrverandi alls 250.000 kr. í miskabætur og 1.250.000 kr. vegna málskostnaðs.

Í niður­stöðu dóms­ins, sem kveðinn var upp 5. júní, fór dóm­ar­inn hörðum orðum um at­hæfi skrif­stofu­stjór­ans:

„Um þá skil­yrðis­lausu hlýðni sem skrif­stofu­stjór­inn virðist ætla af stefn­anda verður sagt það eitt að þrátt fyr­ir stjórn­un­ar­rétt ann­ars og hlýðniskyldu hins eru und­ir­menn ekki dýr í hring­leika­húsi yf­ir­manna sinna.“

Dómari féllst á það að áminningin hafi verið fallin til þess að skaða æru fjármálastjórans og að skrifstofustjórinn sem hana veitti hljóti að hafa séð í hendi sér að hún væri særandi fyrir starfsmanninn.

Auk þess máls, nefna fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins að Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hafi talið sig hrakyrtan og svívirtan af þáverandi formanni borgaráðs í október árið 2016 og að á fyrsta borgarstjórnarfundi nýs kjörtímabils 19. júní hafi verið margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn velsæmismörk.

Kallar á sterk viðbrögð frá borginni

Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokks og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í ráðinu létu sömuleiðis bóka að dómur héraðsdóms kallaði á „sterk viðbrögð af hálfu borgarinnar.“ Þau segjast jafnframt líta það „grafalvarlegum augum“ að sú framkoma og hegðun sem lýst er í dómnum fái þrifist innan ráðhússins.

Þau sögðu einnig alla sem hefðu áður komið að málinu á einhvern hátt vera vanhæfa til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins og að rétt væri að allar ákvarðanir um framhald málsins yrðu teknar á vettvangi borgarráðs, þar á meðal ákvarðanir um framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi ráðhússins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert