Í framúrakstri er slysið varð

Ekið í gegnum Mosfellsdal. Þar er 70 kílómetra hámarkshraði.
Ekið í gegnum Mosfellsdal. Þar er 70 kílómetra hámarkshraði. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Bílar sem lentu í árekstri í Mosfellsdal í gær, með þeim afleiðingum að farþegi í öðrum þeirra lést, voru báðir á leið í vesturátt, þ.e. á leið í átt að Mosfellsbæ.

Áreksturinn varð til móts við afleggjarann að Æsustöðum um klukkan 16 er annar bíllinn var að taka fram úr bílum á Þingvallaveginum. Bílstjóri þess bíls var einn á ferð en sá sem lést var farþegi í bíl sem hann var að taka fram úr. 

Við áreksturinn kastaðist ann­ar bíll­inn langt út fyr­ir veg og ofan í skurð. Mikill viðbúnaður var á vettvangi og var Þingvallavegur lokaður í um tvo tíma vegna slyssins.

Bílstjórar beggja bílanna voru fluttir slasaðir á slysadeild Landspítalans. Allt fólkið er íslenskt. 

Rannsókn á tildrögum slyssins er á frumstigi og mun hún væntanlega standa í einhverja daga, að sögn Valgarðs Valgarðssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir m.a. til rannsóknar hvort þriðji bílinn hafi lent í árekstrinum með einhverjum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert