Landspítalinn liðkaði fyrir viðræðum

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Hari

„Við erum tilbúin að skoða röðun ljósmæðra [innan launastigans] í ljósi sérstöðu þeirra og aukins álags,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Samninganefndir ríkis og ljósmæðra náðu loks saman í gær. Samkomulagið byggir að mestu á samningi frá í maí, sem ljósmæður felldu með 70 prósentum atkvæða, en útspil Landspítalans er nýtt.

Páll segir að nýlega hafi verið hafin vinna við setningu jafnlaunastaðals fyrir spítalann. Þar komi hlutir eins og verðmætamat starfa til skoðunar, sem sé oft til þess fallið að hækka laun hefðbundinna kvennastétta. Aðspurður segir Páll að hann telji að slíka endurskoðun til þess fallna að hækka laun ljósmæðra, og vonar það.

Ómskoðanir fara fram

Ljósmæður hófu yfirvinnubann aðfaranótt miðvikudags, en því var aflýst þegar samkomulagið var í höfn í gærkvöldi.

Til að bregðast við yfirvinnubanninu var fyrirhugað að tólf vikna ómskoðunum yrði hætt frá og með morgundeginum en þær eru nú aftur á dagskrá. „Þær konur sem eiga boð í ómskoðun eftir helgi geta mætt.“

Þá var meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítala lokað á föstudag og starfsemi hennar sameinuð kvenlækningadeild. Páll segir heilmikið mál að færa deildir til og það verði ekki gert á einni nóttu. „Við munum að óbreyttu opna hana eftir helgi.“

Hann segir að það taki tíma að vinda ofan af áhrifum verkfallsins. „Það sem gerist nú er að við færumst aftur á þann stað sem við vorum fyrir miðvikudag [þegar verkfall hófst].“ Róðurinn er þó enn þungur því fjöldi ljósmæðra, einkum á meðgöngu- og sængurlegudeild, hefur sagt upp störfum.

Páll gerir sér vonir um að hið nýja samkomulag verði til þess að ljósmæður dragi uppsagnir sínar til baka, en veit ekki dæmi þess að það hafi þegar gerst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert