Samstöðufundi frestað

Samstöðufundir með ljósmæðrum hafa nokkrum sinnum verið haldnir á meðan …
Samstöðufundir með ljósmæðrum hafa nokkrum sinnum verið haldnir á meðan kjaradeilunni hefur staðið. mbl.is/Hari

Stuðningshópur ljósmæðra hefur frestað samstöðufundi sem til stóð að halda við fæðingardeild Landspítalans í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá hópnum.

„Við fögnum því að samninganefnd ljósmæðra hefur samþykkt nýja sáttatillögu sem verður lögð fyrir ljósmæður á næstu dögum,“ segir í tilkynningunni sem Eva Huld Ívarsdóttir sendir fyrir hönd hópsins. „Í ljósi þess höfum við ákveðið að stíga skref til baka, fresta samstöðufundinum þar sem til stóð að slá skjaldborg um fæðingardeildina og veita ljósmæðrum styrk og sjá hvað setur.“

Svo segir:

 „Við leggjum áherslu á áframhaldandi stuðning okkar við ljósmæður, við styðjum þær á þeirra forsendum í því að samþykkja hvern þann samning sem þeim hugnast og jafnframt að hafna samningi sem þeim misbýður.

 Við höfum fundið fyrir víðtækum stuðningi við kröfu ljósmæðra í samfélaginu öllu og að baki þeim stendur þéttur og stór hópur fólks sem samvisku sinnar vegna getur ekki samþykkt þá framkomu sem ljósmæður hafa mátt þola í sinni kjarabaráttu. Hann er hvergi farinn. Við tökum aðeins eitt skref til baka til að veita samningsaðilum andrými til þess að mynda sér skoðun. En við stöndum hér áfram, þétt að baki ljósmæðrum ef fleiri hríðar eru enn ókomnar. Við förum ekki fet.

 Ljós og samstöðumáttur ávallt,

 Stuðningshópur ljósmæðra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert