Sigraði anorexíuna

Katrín segir hreyfinguna mikilvægasta þáttinn í sínu bataferli og vinnur …
Katrín segir hreyfinguna mikilvægasta þáttinn í sínu bataferli og vinnur nú sem hóptímaþjálfari í Reebok Fitness. Valgarður Gíslason

Fyrir nokkrum árum var Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir langt leidd af átröskunarsjúkdómnum anorexíu. Í dag er hún hreystin uppmáluð og vinnur sem hóptímakennari hjá Reebok Fitness ásamt því að stunda meistaranám í íþróttafræði við Háskóla Íslands.

Katrín æfði ballett fram á unglingsár en ballettdansinn hefur einmitt oft verið bendlaður við átröskunarsjúkdóma. „Ég kenni honum engan veginn um þetta en hann hafði samt áhrif; það þykir betra að vera grannur ballettdansari. Ég held bara að það séu alltaf einhverjir persónuleikaþættir sem ýta undir þetta; fullkomnunarárátta og einhver þörf fyrir að hafa stjórn. Og ég hef alveg haft tilhneigingu til að vera með þráhyggju,“ segir Katrín.

Borðaði einu sinni á dag

Átröskunin byrjaði þegar Katrín var fimmtán ára en þá segist hún hafa skrifað niður í litla bók hvað hún ætlaði að borða daginn eftir og áætlað hvað það voru margar hitaeiningar. „Auðvitað áætlaði ég þær langt umfram það sem þær voru í raun. Eitt epli var alltaf tvö hundruð kaloríur í minni bók. Síðan hugsaði ég að ég gæti nú alveg sleppt einhverju á listanum og sleppti því næsta dag. Svo jókst það.“

Katrín Þóra var farin að borða aðeins eina máltíð á dag og foreldra hennar grunaði ekkert til að byrja með. „Ég var í skólanum og ballett allan daginn og kom heim klukkan níu á kvöldin. Þá borðaði ég kvöldmat en ég hafði ekkert borðað allan daginn. Þannig að mamma og pabbi sáu mig alltaf borða kvöldmat. Mamma sendi mig með nesti í skólann en ég henti því nú bara einhvers staðar á leiðinni í skólann.“ Og Katrín reyndi alltaf að vera vöknuð fyrst á morgnana til að geta þóst vera búin að borða morgunmat á undan hinum í fjölskyldunni.

„Fyrst fannst mér alveg frábært að vera að grennast og fólk hrósaði mér fyrir að líta vel út. En svo kom að því að fólk var farið að hafa áhyggjur af mér. Foreldrar mínir töluðu við mig og systkini mín líka og vinkonur. En þá fannst mér þau bara vera að skipta sér af og varð pirruð og fór í vörn. Mér fannst þau ekki skilja mig; að ég hefði bara metnað fyrir dansinum og þetta væri það sem ég þyrfti að gera til að ná árangri.“

Katrín segir að margir átröskunarsjúklingar nái aldrei að losa sig við þann hugsunarhátt en hann sé mjög hættulegur. „Það fyrsta sem maður þarf að gera áður en maður fer í bata er að átta sig á því að maður glími við vandamál. Maður verður að losa sig við þann hugsunarhátt að maður sé að gera rétt.“

Foreldrar Katrínar, systkini og vinkonur gáfust þó ekki upp á að tala um þetta við hana og það segir Katrín hafa verið gríðarlega mikilvægt. „Þótt ég hafi alltaf farið í vörn og verið bara hundleiðinleg, þá hafði það áhrif að heyra þetta frá þeim. Fólk má ekki gefast upp. Kannski halda foreldrar að barnið þeirra hætti að tala við þá ef þeir reyna að tala um þetta en þetta síast inn.“

Lystarstol ekki rétta orðið

Katrín segist hafa gert sér grein fyrir því að ástandið væri alvarlegt en samt hafi hún haldið sveltinu áfram.

„Þegar ég var sem veikust snerist þetta ekkert um að verða mjó. Mér fannst ég ógeðsleg og ég vissi að ég væri allt of mjó. Ég sá hvernig fólk horfði á mig. Strákar höfðu ekki áhuga á mér í menntaskóla. Og ég vissi að fólk hafði áhyggjur af mér. Mér leið svakalega illa og fannst ég algjör aumingi að geta ekki bara verið eðlileg. Samt hélt ég áfram. Þetta snerist bara um að ég þurfti að hafa stjórn á einhverju.“

Líkamlegt ástand Katrínar var orðið mjög slæmt. „Ég gat ekki sofið á nóttunni af því að ég var svo svöng. Ég var farin að vakna í svitabaði, sjálfsagt vegna einhverra hormónabreytinga. Mér var alltaf kalt og illt í maganum, ég var alltaf þreytt og gat aldrei gert neitt. Svo tekur þetta gríðarlega á mann að þurfa alltaf að hugsa um hvernig maður ætlar að sleppa því að borða. Þetta heltekur mann alveg.“

Katrín segir að þessu hafi fylgt mikið þunglyndi og á hana hafi leitað sjálfsvígshugsanir. „Ég grét á hverju einasta kvöldi og bað til Guðs að hjálpa mér. Það er náttúrlega ekkert meira niðurdrepandi en að vera alltaf svangur. Þess vegna finnst mér orðið lystarstol vera alveg fáránlegt. Því maður er alltaf að hugsa um mat og er alltaf svangur. Maður er ekki með neitt lystarstol, heldur er bara að neita sér um að borða.“  

Setti sér afarkosti

Þegar Katrín var sautján ára, og orðin hvað veikust, vó hún aðeins fjörutíu og þrjú kíló en hún er 178 sentimetrar á hæð. Hún var því um þrjátíu og fimm kílóum undir kjörþyngd. Hún féllst loksins á að hitta geðlækni og segir að það hafi verið upphafið á bataferlinu þótt sér finnist það ekki ástæða batans. Það hafi verið boot camp-æfing sem gerði útslagið.

„Ég hef alltaf elskað hreyfingu en hafði ekkert hreyft mig eftir að ég hætti í ballettinum og saknaði þess mjög mikið. Þegar ég byrjaði hjá geðlækninum var það alltaf takmarkið hjá mér að fara að hreyfa mig á ný þegar mér yrði batnað.“

Þyngdin hafði farið upp um örfá kíló þegar eldri bróðir hennar, Friðrik, bað hana um að koma með sér á æfingu í boot camp. „Ég fann að hann hafði rosalegar áhyggjur af mér og mér þótti ofboðslega vænt um að hann skyldi bjóða mér með. Ég vissi alveg hvað hann var að gera og ég er honum mjög þakklát. Það að hafa farið á þessa æfingu með honum er það besta sem hefur komið fyrir mig,“ segir Katrín og brosir. Hún segir að þjálfararnir hafi strax séð að hún væri ekki í neinu ástandi til að fara í þessar erfiðu brennsluæfingar sem voru í boði. „Einn þjálfaranna, Arnaldur Birgir Konráðsson, Biggi, tók mig bara að sér og við gerðum þetta í samráði við geðlækninn, sem var mjög efins um þetta í fyrstu. Venjan er nefnilega að taka anorexíusjúklinga úr allri hreyfingu, sem ég er mjög ósammála. Sumir þurfa kannski að hætta algjörlega í hreyfingu á meðan þeir eru að ná bata, en hjá mér hafði það þveröfug áhrif. Þegar ég hætti að hreyfa mig þá virkilega datt ég niður í þunglyndi.“

Katrín segist hafa sett sjálfri sér afarkosti þegar hún byrjaði í þjálfuninni. „Ég sagði við sjálfa mig að ég skyldi gefa þessu ár og ef þetta tækist ekki hjá mér í þetta sinn, þá mætti ég drepa mig. En það að byrja hjá Bigga hafði úrslitaáhrif. Hann bannaði mér að fara á boot camp-æfingar og lét mig lyfta. Hann setti upp lyftingaprógramm, lét mig skila inn matardagbók og vigtaði mig í hverri viku. Mér fannst þetta geðveikt! Og loksins gat ég sett metnað í að verða sterk og kraftmikil.“

 Langar að verða einkaþjálfari

 Katrín er lögfræðingur að mennt en stundar nú meistaranám í íþróttafræði við Háskóla Íslands. „Ég ætlaði alltaf að verða læknir en hætti við það og vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Svo ég skráði mig bara í lögfræði. Það nám hentaði mér alls ekki, ég er meira svona skapandi einstaklingur. Ég ákvað samt að klára BA-gráðu því hún kemur sér vel og ég gat til dæmis farið beint í master í íþróttafræðinni síðastliðið haust.“

 Katrín segist eiga heilbrigt samband við mat í dag. „Núna veit ég hvað matur gerir manni gott. Hann heldur í okkur lífi og mér finnst mikilvægt að fólk líti ekki á mat sem einhvern óvin. Ég fæ mér alveg nammi og mér finnst pitsa rosalega góð. Ég held að ég sé alveg læknuð af anorexíunni en hins vegar veit ég að ég, eins og svo margir, og sérstaklega stelpur og konur, hugsa alveg að ég hafi borðað of mikið og sé of feit í einhverjum buxum. En munurinn á mér núna og þá er að ég fer ekki í einhverjar aðgerðir við þessum hugsunum. Þær bara koma og fara svo. Ef ég hugsaði þetta þegar ég var veik, þá bara borðaði ég ekki í þrjá daga.“

Katrínu langar að starfa sem einkaþjálfari í framtíðinni og segir að reynsla hennar af sjúkdómnum muni koma sér vel. „Ég held að þetta hjálpi mér að takast á við þessa menningu sem er í dag; að maður eigi að skammast sín fyrir að borða. Skammast sín fyrir aukakílóin. Ég er algjörlega á móti þeirri hugsun. Mér finnst allir fallegir og ég get sagt það núna af því að ég var að glíma við þetta. Mér finnst að fólk eigi bara að fá að vera eins og það er.“

Nánar er rætt við Katrínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Katrín henti flestum myndum af sér því hún skammaðist sín …
Katrín henti flestum myndum af sér því hún skammaðist sín fyrir þær.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert