Enn ekki tímabært að meta skaðann

Skriðan sem féll úr Fagraskógafjalli er eins sú stærsta sem …
Skriðan sem féll úr Fagraskógafjalli er eins sú stærsta sem fallið hefur á Íslandi á sögulegum tíma. Ljósmynd/Mihails Ignats

„Það varð land undir skriðunni og það þarf ekki að meta það neitt nánar, það er bara ónýtt,“ segir Finnbogi Leifsson, bóndi í Hítardal. Rúmar tvær vikur eru liðnar síðan geysilega stór grjótskriða féll úr Fagraskógafjalli skammt frá bæ Finnboga.

Finnbogi segist enn ekki hafa getað metið þann skaða sem grjótskriðan olli en svæðið sem varð undir henni er mestmegnis gróið landsvæði. Hann segir að talsvert beitiland hafi orðið undir en ekki sé tímabært að segja til um það hvort sauðfé hafi verið á svæðinu þegar skriðan féll.

Þá segir Finnbogi það eiga eftir að koma í ljós hvort skriðan og afleiðingar hennar komi til með að hafa frekari áhrif á svæðið. „Það er spurning hvort  Hítaráin komi til með að skemma eitthvað frá sér þegar það fer að aukast í henni vatn í vetur og vor. Það verður bara að koma í ljós.“

Við fall skriðunnar stíflaðist Hítará sem er ein vinsælasta og besta laxveiðiá á Vesturlandi. Í fyrstu myndaðist lón ofan við skriðuna en eftir því sem það fylltist fann áin sér nýjan farveg í þveránni Tálma sem sameinast Hítará 10-12 kílómetrum neðar.

Fiskfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun sagði í samtali við mbl.is stuttu eftir að skriðan féll að löxum í ánni gæti fækkað um allt að 20%. Þau áhrif munu þó líklega ekki koma fram fyrr en eftir tvö ár.

Ólafur Sigvaldason, formaður veiðifélags Hítarár, sagði í samtali við mbl.is að veiði í ánni hefði gengið vonum framar það sem af væri sumars. Strax eftir að skriðan féll gerði gróður í ánni veiðimönnum erfitt fyrir en svo virðist sem það vandamál sé nú úr sögunni í bili að minnsta kosti.

„Þetta er allt annað núna. Áin er bara nokkuð hrein og það er ágætis veiði í henni,“ segir Ólafur. Þá sé jafnvel um þriðjungi meiri veiði en var í fyrra. „Þetta er alveg frábært og lítur mjög vel út eins og er. Maður hefur ekki þekkingu á því hvað svona breytingar hafa í för með sér en þetta lítur ágætlega út fyrir sumarið og vonandi það næsta.“

Skriðan er ein sú stærsta sem fallið hefur á sögulegum tíma á Íslandi. Samkvæmt mælingum Veðurstofu er hún 10-20 milljónir rúmmetra og er flatarmál hennar um 1,5 milljónir fermetra. Þá kom fram í frétt Veðurstofu um skriðuna sem birtist fyrir helgi að hreyfing hafi mælst á svæðinu áður en skriðan féll. Styrkir það þá túlkun að framhlaup hafi venjulega einhvern aðdranganda sem hægt sé að greina með gervitunglagögnum og öðrum mælingum.mbl.is