Hlaupa fyrir tengdamömmu

Birna, Edda Ýrr, Margrét Rós og Íris Einarsdætur.
Birna, Edda Ýrr, Margrét Rós og Íris Einarsdætur.

Fjórar systur; þær Brynja, Edda Ýrr, Margrét Rós og Íris Einarsdætur verða meðal þátttakenda í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 18. ágúst nk. Systurnar ætla að hlaupa 10 km fyrir tengdamóður Brynju, Katrí Raakel Tauriainen, sem greindist með beinmergsæxli vorið 2017. Systurnar safna styrkjum fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

Brynja hljóp einnig fyrir tengdamóður sína í hlaupinu í fyrra og safnaði áheitum fyrir Krabbameinsfélag Íslands. Þá var mágkona Brynju, Saara Annikki Guðmundsdóttir, og systir Katríar, Saara Grönbörg, með Brynju í för í 10 km hlaupinu.

„Ég tek systurnar mínar með í ár því mágkonan mín, sem hljóp með mér í fyrra, er kasólétt, þannig að ég þurfti að finna annan hóp og þær voru að sjálfsögðu til í að koma með mér,“ segir Brynja í samtali við Morgunblaðið. Tóku systurnar fjórar m.a. þátt í Miðnæturhlaupi Suzuki fyrir um mánuði.

„Hún er mín helsta fyrirmynd“

„Hún er alveg ótrúlega mögnuð og sterk manneskja, afar dugleg og ein sú jákvæðasta, sem ég hef á ævinni kynnst og hún er mín helsta fyrirmynd í einu og öllu,“ segir Brynja um tengdamóður sína. Aðspurð hvernig Katrí heilsist í dag segir Brynja hana vera nokkuð stöðuga.

„Hún er inni á spítala eins og er en kemst vonandi heim á næstu dögum. Þetta hefur verið ansi strembið ár. Hún hefur oft fengið bakslag, til að mynda fengið inflúensu og sýkingar ofan í það, sem hefur ekki hjálpað til,“ segir Brynja en bætir við að þrátt fyrir erfiða baráttu sé Katrí ávallt jákvæð. „Þannig að jákvætt viðhorf og rétt hugarfar heldur manni gangandi í þessum málum eins og í hlaupunum,“ segir Brynja.

Katrí er fædd í Finnlandi en fluttist fimm ára að aldri með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar. Þar kynntist hún síðar eiginmanni sínum, Guðmundi Rúnari Guðmundssyni. „Svo ætlaði hún bara að prófa að kíkja hingað til Íslands og búa hér í eitt ár, árið 1984, en hún hefur ekkert farið síðan,“ segir Brynja um Katrí.

Var engin hlaupamanneskja

Brynja segist alltaf hafa tekið þátt í hreyfingu af einhverju tagi en langhlaup hafi verið nýr vettvangur fyrir hana þegar hún hljóp 10 km í fyrsta sinn í fyrra. „Viku fyrir hlaupið í fyrra gat ég varla hlaupið einn kílómetra vegna eymsla í hné, en einhvern veginn fór ég þessa 10 km á hörkunni á rétt rúmum klukkutíma án þess að stoppa. Þannig að það er eitthvað í hausnum á manni, sem heldur manni gangandi,“ segir Brynja og bætir við: „Svo hættir maður þessu ekkert eftir að hafa prufað einu sinni.“

Síða Brynju á hlaupastyrkur

Katrí Raakel Tauriainen ásamt barnabörnum, Ólíver og Victori Flóka.
Katrí Raakel Tauriainen ásamt barnabörnum, Ólíver og Victori Flóka.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert