Kolvitlaust að gera hjá lögreglunni

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolvitlaust var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og fram á nótt, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra. Alls komu 70 mál inn á borð lögreglunnar frá klukkan 19 til þrjú í nótt. Nokkuð rólegra varð yfir eftir klukkan þrjú í nótt en alls komu 78 mál til kasta lögreglu frá klukkan 19 til tæplega sjö í morgun. Meðal annars komu nokkrar árásir til kasta lögreglu og eru allar fangageymslur fullar eftir nóttina.

Um miðnætti voru tveir einstaklingar handteknir á Völlunum í Hafnarfirði vegna ráns en þolandi í málinu lagði til fólksins með hnífi með þeim afleiðingum að stunguáverkar hlutust. Um minni háttar áverka var að ræða. Allir málsaðilar gista nú fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Tilkynnt var um líkamsárás í Rimahverfinu í Grafarvogi um tíuleytið í gærkvöldi. Að sögn lögreglu er um minni háttar meiðsli að ræða.

Tveir voru handteknir á Nýbýlavegi klukkan 01:40 eftir að lögreglumenn veittu vopni athygli í bifreiðinni. Hinir handteknu veittust að lögreglu þannig að áverkar hlutust af. Beita þurfti varnarúða til að yfirbuga hina handteknu á vettvangi. Mennirnir gista nú fangageymslu.

Á fjórða tímanum í nótt handtók lögreglan mann í Öskjuhlíð sem hafði ráðist á annan mann með ofbeldi og veitt viðkomandi áverka.

Um fimmleytið var tilkynnt um líkamsárás í miðborginni. Tveir handteknir og eru í haldi lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert