Vill úrbætur í Mosfellsdal strax

Hross á beit í Mosfellsdal. Ferðamenn stoppa gjarnan við Þingvallaveginn …
Hross á beit í Mosfellsdal. Ferðamenn stoppa gjarnan við Þingvallaveginn til að taka myndir af hrossum. Þetta skapar mikla hættu. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Ég skil áhyggjur íbúa Mosfellsdal fullkomlega. Við erum sannarlega með þeim í liði í því að fá framkvæmdir sem þarna standa til í gegn sem fyrst.“

Þetta segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, um umferðaröryggismál í Mosfellsdal. Um helgina varð banaslys á veginum. Dalbúar hafa lengi krafist úrbóta á Þingvallavegi sem þeir lýsa sem „hraðbraut“ og „rússneskri rúllettu“. Þar er ekið hratt, framúrakstur tíður, ferðamenn stoppa hist og her til að mynda hesta á beit og skeyta engu hvort að þeir tefji umferð, byrgi sýn og valdi stórhættu í gegnum landbúnaðarsvæði þar sem dýr og gangandi menn eru mikið á ferðinni.

„Umferð um [Þingvallaveg] hefur aukist mjög mikið, sérstaklega eftir að nýi vegurinn yfir Lyngdalsheiðina var lagður,“ segir Haraldur. „Þessi vegur er bara einhvern veginn þannig að hann býður upp á hraðaakstur, hann er beinn þó hann sé ekki breiður. Þess vegna er nauðsynlegt að fara í framkvæmdir sem búið er að skipuleggja og ræða um til að auka umferðaröryggið sem er ekki ásættanlegt eins og er og þetta banaslys um helgina sýnir okkur.“

Hefur gengið of hægt

Spurður hvað sé til ráða segir Haraldur að koma deiliskipulagi, sem feli m.a. í sér tvö hringtorg á veginum, vegaxlir og undirgöng fyrir gangandi og ríðandi, í framkvæmd sem fyrst. Hann segir að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ hafi rætt umferðaröryggismál í Mosfellsdal við ríkisvaldið undanfarin ár og að deiliskipulagið hafi nú verið í vinnslu í um ár. „Okkur finnst þetta reyndar hafa gengið alltof hægt en vonandi fer þetta að koma.“

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ. mbl.is/Golli

Nú hilli undir að skipulagsferlinu ljúki og að hægt verði að hefja framkvæmdir. „Það sem við höfum áhyggjur af er fjármagnið í framkvæmdina,“ segir Haraldur. Hann átti fund með forsvarsmanni Vegagerðarinnar nýverið þar sem þeim áhyggjum var komið á framfæri. Ekkert fjármagn sé eyrnamerkt framkvæmdinni og því var ákveðið að ræða sérstaklega við Vegagerðina til að fylgja málinu eftir. „Það er ekki nóg að skipuleggja, það verður að framkvæma,“ segir Haraldur.

Hann segir að viðbrögð Vegagerðarinnar hafi verið jákvæð og telur ekki tilefni til svartsýni. „Við fengum þau svör að það yrði væntanlega hægt að fara í þessa framkvæmd þegar skipulagsferlinu verður lokið og við vonum að staðið verði við það. Það er þá væntanlega á næsta ári.“

Hraðamyndavélar og merkingar

En dalbúar vilja aðgerðir strax. Er eitthvað sem þið munuð beita ykkur fyrir að verði gert strax?

„Já, við erum þegar búin að því,“ svarar Haraldur. „Við höfum skrifað Vegagerðinni bréf þar sem við höfum óskað eftir því að það verði farið nú þegar í framkvæmdir sem eru ekki skipulagsskyldar. Eins og að setja upp hraðamyndavélar í dalnum og að yfirborðsmerkingar verði settar á veginn til að ítreka hver hámarkshraðinn sé. Slíkar aðgerðir er hægt að fara í strax og við vonum nú að Vegagerðin hlusti á það.“

Umferðarþungi í Mosfellsdal er orðinn mjög mikill.
Umferðarþungi í Mosfellsdal er orðinn mjög mikill. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir vel hafa verið tekið í þessar kröfur á fundi með forsvarsmönnum stofnunarinnar nýverið. „Við munum að sjálfsögðu ýta á eftir þessu aftur núna og halda þessu máli vakandi.“

Verður að tvöfalda Vesturlandsveg

Haraldur segir að þó umferðarörygginu sé helst ábótavant í Mosfellsdal þá séu aðrir vegir í Mosfellsbæ einnig ósásættanlegir. Þannig sé enn ekki búið að tvöfalda kafla á Vesturlandsvegi, milli tveggja hringtorga á kaflanum neðan Lágafellskirkju. „Það er afskapalega nauðsynlegt að lokið verði við tvöföldun Vesturlandsvegar í gegnum Mosfellsbæ. Þetta er einn umferðarmesti þjóðvegur landsins. Okkur finnst þetta ekki boðlegt. Fyrir utan nú allar umferðartafirnar sem verða,“ en á álagstímum myndast oft langar raðir bíla á þessum tiltekna kafla.

„Við höfum líka rætt þetta við Vegagerðina,“ segir Haraldur. Spurður hvernig viðbrögðin hafi verið segir hann að ekki standi á jákvæðum viðbrögðum frá forsvarsmönnum stofnunarinnar. „En þetta er alltaf spurning um peninga. Við vorum alla vega sammála um það að hefja undirbúning að þessum framkvæmdum, þannig að um leið og fjármagn fæst sé allt til reiðu.“

mbl.is