„Við höldum sjó“

„Það sem varð til þess að við urðum að fara …
„Það sem varð til þess að við urðum að fara í þennan flutning var að það var búið að vera rólegt hjá okkur og þess vegna gekk þetta fyrstu tvær vikurnar í júlí.“ Ljósmynd/Pexels

Meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans var opnuð að nýju í dag eftir að henni var lokað á föstudag og hún sameinuð kvenlækningadeild 21A. Að sögn yfirljósmóður á deildinni gekk sameiningin áfallalaust fyrir sig. Hún á hins vegar ekki von á að allar þær ljósmæður sem sagt hafa upp dragi umsókn sína til baka þó að ljósmæður samþykki miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

„Það gekk allt mjög vel á meðan deildirnar voru sameinaðar,“ segir Hilda Friðfinnsdóttir yfirljósmóðir. „En það sem maður hefur alltaf áhyggur af þegar eru svona sameiningar er að fólk ekki að vinna á sínum stað og í svona flutningum er alltaf hætta á einhverjum óvæntum uppákomum.“

Flutningum skjólstæðinga á meðgöngu- og sængurlegudeild er lokið en það sem stendur eftir, að sögn Hildu, er mönnunarvandi deildarinnar. „Hann er ekki leystur. Við höldum áfram að vinna eftir aðgerðaráætluninni sem sett var fram í lok júní. Við komum áfram til með að þurfa að senda konur í keisaraskurði út á land og nýta okkar samstarfssjúkrahús eins mikið og við getum.“

Ástandið það sama og fyrir verkfall

Í forstjórapistli Páls Matthíassonar síðastliðinn föstudag kom fram að mönnun á meðgöngu- og sængurlegudeild hefði ekki náð verkfallsneyðarlista áður en yfirvinnubann ljósmæðra tók gildi. Sú staða er enn uppi á deildinni. „Ástandið er mjög þungt og í rauninni það sama og fyrir verkfallið.“

„Það sem varð til þess að við urðum að fara í þennan flutning var að það var búið að vera rólegt hjá okkur og þess vegna gekk þetta fyrstu tvær vikurnar í júlí. Svo kom toppur í fæðingum og þá réðum við ekki við þetta með þessa mönnun, plús verkfallið. Núna er ennþá mikið að gera en við ráðum við þetta, við höldum sjó.“

Eins og mbl.is greindi frá í morgun hefur engin ljósmóðir á Landspítalanum enn dregið uppsögn sína til baka. „Það bíður örugglega morgundagsins,“ segir Hilda. Hún segir að þær sem hættu 1. júlí þurfi þær að sækja um að nýju, en hún á von á því að þeim verði tekið fagnandi.

Alveg ljóst að það koma ekki allar til baka

„Þær gera það ekki allar,“ segir hún aðspurð hvort hún haldi að  þær sem hafi sagt upp komi til baka. „Ég á von á að flestar geri það en ég er ekki viss um að ég fái þær allar í eins mikið starfshlutfall og þær voru í. Ég veit að það munu ekki allar draga uppsögn sína til baka, það er alveg ljóst.“

Hilda segir alla vona að deilan verði endanlega leyst á morgun. „Fólk er orðið mjög þreytt sem er búið að standa vaktina núna í júlí, það hefur mætt mikið á sama fólkinu. Vonandi fer fólkið okkar að skila sér aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert