Íslensk stúlka slær í gegn í Köben

„Við höfum gengið fram á ýmsa ólíka götuspilara í Köben og Tekla byrjar alltaf að dansa. Eftir um tuttugu mínútna stöðugan dans sendi gítarleikarinn míkrófóninn yfir á hana,“ segir Tindur Hafsteinsson. Dóttir Tinds, Kristbjörg Tekla, vakti heldur betur athygli vegfarenda á Købmagergade í Kaupmannahöfn með frumsömdu lagi og texta.

„Hennar helsti hæfileiki er þörfin fyrir að tjá sig, sama í hvaða formi það er. Gæðin eru svo í beinu samhengi við æfinguna,“ segir Tindur.

Kristbjörg Tekla, eða Tekla eins og hún er gjarnan kölluð, er aðeins sjö ára gömul en spann á staðnum bæði lag og texta í fyrradag þegar hún fékk tækifærið til. Texti Teklu er að mestu leyti á ensku og hikar blaðamaður ekki við að segja að jafn skemmtilegur orðaforði sé vandfundinn hjá svo ungum krökkum.

Á meðal þess sem kemur fram í spuna Teklu er „listen to your heart, listen to your brain,“ eða hlustaðu á hjartað, hlustaðu á heilann og „when i was newborn i started to dance,“ eða þegar ég var nýfædd byrjaði ég að dansa. Að sögn foreldra Teklu hefur hún mestmegnis kennt sér enskuna sjálf og að þau hafi uppgötvað það þegar hún var fjögurra ára.

Eftir sönginn hélt Tekla svo áfram að dansa við undirleik götuspilarans þangað til hann var búinn á því. „Þá fór hún í eltingaleik við tvær systur á næsta torgi,“ segir Tindur.

Tekla hefur æft dans síðan hún var þriggja ára, fyrst í Plié-ballettskólanum og síðar í dansskóla Birnu Björnsdóttur. Þar að auki hefur hún sungið á leiklistarnámskeiðum hjá Draumum í Garðabæ en Tindur segir að spuninn sé nýr fyrir honum þó að Tekla hafi löngum verið dugleg að spinna dansa.

Myndskeið af söng Teklu má sjá hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert