Rannsókn slyssins miðar ágætlega

Banaslysið í Mosfellsdal á laugardag varð við framúrakstur á vegarkafla …
Banaslysið í Mosfellsdal á laugardag varð við framúrakstur á vegarkafla þar sem fjöldi afleggjara er að bæjum í dalnum. Árni Sæberg

Rannsókn á banaslysinu í Mosfellsdal á laugardag miðar ágætlega. Enn á þó eftir að ganga frá ýmsum lausum endum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, m.a. á eftir að fara fram rannsókn á bílunum tveimur sem lentu í árekstri.

„Við vitum ekki enn með alveg nákvæmum hætti hvað gerðist þarna, en við vitum að um framúrakstur var að ræða. Það eru ýmsir þættir sem þarf að skoða, t.d. að senda bílana í bíltæknirannsókn, athuga með hraða o.fl. og fá slíka tæknilega þætti staðfesta,“ segir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni við Vínlandsleið.

„Þetta eru aðallega tæknilegir þættir og mögulega munum við heyra í fleiri vitnum. Það voru nokkur vitni á vettvangi sem gátu sagt til um hvað gerðist,“ segir hann.

Kona á níræðisaldri lést í slysinu sem varð við afleggjara að Æsustöðum í Mosfellsdal á laugardag. Íbúar á svæðinu hafa lýst yfir þungum áhyggjum af vegaöryggi á löngum beinum kafla í Mosfellsdal, einkum vegna hraðaksturs.

mbl.is