Rose kom Arnari Eggerti á óvart

Meðlimir Guns N' Roses voru á eldi.
Meðlimir Guns N' Roses voru á eldi. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Ég var sérstaklega ánægður með Axl [Rose]. Maður hefur alltaf áhyggjur af honum af því hann er svo mislyndur. Hann brosti, gerði að gamni sínu og það var létt yfir honum. Ég held að fólk hafi verið mjög ánægt með það. Hinir gerðu bara það sem þeir gera alltaf,“ segir Arnar Eggert Thoroddsen poppfræðingur í samtali við mbl.is. 

„Hann [Axl Rose] kom mér á óvart sko. Nú er ég búinn að sjá slatta af tónleikum þar sem menn eru komnir yfir hjallann og honum tókst þetta. Hann var svona mistækur kannski milli laga en eitt af síðustu lögunum var Nighttrain og þar var hann alveg á fullu,“ bætir hann við.

mbl.is/Valgarður Gíslason

Arnar hefur ekki verið mikill aðdáandi Guns N‘ Roses í gegum tíðina en var heilt yfir ánægður með frammistöðu hljómsveitarinnar í gær. Honum fannst hljómsveitarmeðlimir faglegir og sinna sínu starfi vel. Þá fannst honum umgjörðin frábær og fagnaði því enda gefur það góð fyrirheit fyrir frekara tónleikahald í þessum stærðarflokki á Íslandi.

„Umgjörðin var alveg til hreinnar fyrirmyndar. Það var eitthvað mjög fagmannlegt við þetta og ég fagna því upp á framtíðartónleikahald á Íslandi,“ segir Arnar sem er strax farinn að velta fyrir sér hvaða tónleika hann vill sjá næst.

„Það sem hægt er að gera næst er t.d. U2, Rolling Stones, Paul McCartney og Bruce Springsteen. En ef ég þyrfti að velja eitt þá væri það Oasis,“ segir hann að lokum, bjartsýnn.

Tónleikagestir brostu út að eyrum.
Tónleikagestir brostu út að eyrum. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Allt geggjað

„Þetta var bara allt geggjað. Það var allavega mín upplifun,“ segir Jón Bjarni Steinsson, einn skipuleggjanda Guns N‘ Roses tónleikanna í gærkvöldi, í samtali við mbl.is.

Tónleikarnir á Laugardalsvelli í gær voru þeir stærstu sem haldnir hafa verið á Íslandi og umfangið í kring um undirbúning þeirra var gríðarlega mikið. Jón Bjarni segir ekkert óvænt hafa komið upp á og að framkvæmdin hafi gengið vel.

„Ég held að framkvæmdin sjálf hafi gengið vonum framar. Það var ekkert vesen og engin vandamál sem komu upp. Við erum allavega mjög sátt með hvernig gekk og mjög þakklát fyrir alla hjálpina sem við fengum,“ segir Jón.

„Þegar hálftími var búinn af Guns N‘ Roses þá fór ég bara og naut þess að horfa á tónleikana. Það var ekki eitthvað sem ég bjóst við að gæti gerst,“ bætir hann við.

Hann segir hljómsveitarmeðlimi og aðstandendur þeirra einnig hafa verið alsæla með útkomuna. Tónleikarnir í gær voru þeir síðustu á Evróputúr hljómsveitarinnar og ætla meðlimir hennar að staldra við á Íslandi og skoða landið.

Slash handleikur gítarinn af mikilli snilld.
Slash handleikur gítarinn af mikilli snilld. mbl.is/Valgarður Gíslason

Jón Bjarni útilokar ekki að halda aðra tónleika af sömu stærðargráðu í ljósi þess hversu vel gekk í gær.

„Núna erum við búnir að sýna það að við getum haldið svona tónleika hérna. Ef við getum haldið Guns N‘ Roses tónleika þá eru ekki mörg bönd sem við getum ekki fengið hingað en svo þarf bara að skoða hvort það gengur upp,“ segir Jón sem er á leiðinni í fæðingarorlof áður en hann veltir frekara tónleikahaldi fyrir sér.

Frá tónleikum Guns N' Roses.
Frá tónleikum Guns N' Roses. mbl.is/Valli
Blaðamaður mbl.is hafði orð á því að Slash hefði farið …
Blaðamaður mbl.is hafði orð á því að Slash hefði farið hamförum. mbl.is/Valli
Guns N' Roses á Laugardalsvellinum.
Guns N' Roses á Laugardalsvellinum. mbl.is/Valgarður Gíslason
Axl Rose á sviðinu.
Axl Rose á sviðinu. mbl.is/Valli
Hljómsveitin þakkar fyrir sig.
Hljómsveitin þakkar fyrir sig. mbl.is/Jón Pétur
Axl Rose syngur lokalagið, Paradise City.
Axl Rose syngur lokalagið, Paradise City. mbl.is/Jón Pétur
Jú, tónleikarnir voru einmitt á Íslandi.
Jú, tónleikarnir voru einmitt á Íslandi. mbl.is/Valgarður Gíslason
Axl Rose og Slash.
Axl Rose og Slash. mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert