Sjö dregið uppsagnir til baka

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sjö ljósmæður hafa dregið uppsagnir sínar til baka á Landspítalanum að sögn Páls Matthíassonar forstjóra. Fyrr í dag hafði verið sagt frá því að ein ljósmóðir á meðgöngu- og sængurlegudeild hefði dregið uppsögn sína til baka, en þær sem hafa dregið sínar uppsagnir til baka síðan þá starfa á mismunandi deildum innan spítalans.

Páll segir þó að til að koma megi starfseminni aftur í eðlilegt horf þurfi þær ljósmæður sem látið hafa af störfum að sækja um aftur. „Ein ljósmóðir er að koma aftur í tímavinnu og mun væntanlega sækja um aftur. Umsóknarfrestur er ekki útrunninn.“

Vonast er til þess að enn fleiri ljósmæður eigi eftir að draga uppsagnir sínar til baka og segist Páll vera bjartsýnn vegna afgerandi niðurstöðu í atkvæðagreiðslu ljósmæðra um miðlunartillögu ríkissáttasemjara.

„Vissulega er þetta mikill léttir fyrir spítalann,“ segir Páll. Þar er enn unnið eftir aðgerðaráætlun þar sem gert er stöðumat tvisvar á dag og liðsinnis annarra stofnana þarf enn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert