Þakklát fyrir afgerandi niðurstöðu

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. mbl.is/Árni Sæberg

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segir kjaradeilu ljósmæðra og ríkis hafa verið einstaklega stranga og snúna en er ánægð með afgerandi niðurstöðu atkvæðagreiðslu ljósmæðra um miðlunartillögu sem hún lagði fram. Bryndís hefur þegar hafist handa við að skipa gerðardóm og er von á niðurstöðu frá honum fyrir 1. september.

„Ég er gríðarlega ánægð með mikla þátttöku hjá Ljósmæðrafélaginu. Þetta er mjög afgerandi niðurstaða og ég er þakklát fyrir það. Fyrir það fyrsta er ánægjulegt að miðlunartillagan hafi verið samþykkt, en mér finnst líka skipta máli og þykir vænt um að það hafi verið með svo afgerandi hætti,“ segir Bryndís. Tillagan var samþykkt með 95,1% atkvæða og var þátttaka 91%.

Í miðlunartillögunni fólst meðal annars að hluta deilunnar yrði vísað til gerðardóms og hefur Bryndís hafið undirbúning fyrir skipun þriggja einstaklinga í dóminn. „Ég mun vinna það mjög hratt og örugglega. Gert er ráð fyrir því að gerðardómur skili af sér fyrir 1. september svo hann hefur ekki ekki mikinn tíma, en hann ætti alveg að nægja. Það liggja flest gögn fyrir.“

Mikill og djúpstæður ágreiningur

„Það var mikill og djúpstæður ágreiningur á milli samningsaðila um það hvort og að hvaða leyti aukið vinnuálag, aukin menntun og breyttar aðstæður í störfum ljósmæðra hefðu skilað sér inn í launasetningu þeirra. Þær vilja meina að svo sé ekki á meðan ríkið telur svo vera. Þetta var stóri ágreiningurinn.“

Af samningafundi ljósmæðra og ríkis.
Af samningafundi ljósmæðra og ríkis. mbl.is/Eggert

„Í raun og veru er gerðardómi ætlað leggja mat á það hvort og þá að hvaða leyti þessir þættir hafa skilað sér, eða ekki skilað sér, inn í þeirra laun. Það þarf að framkvæma ákveðna úttekt á þeirra störfum með hliðsjón af launaþróun þeirra og annarra sambærilegra hópa.“

Niðurstaða gerðardóms er endanleg og ekki er hægt að áfrýja henni. „Gerðardómur er algerlega sjálfstæður, vinnur á sína ábyrgð og án nokkurra frekari fyrirmæla frá mér eða öðrum.“

Beiting miðlunartillögu ákveðið neyðarúrræði

Bryndís var skipuð ríkissáttasemjari árið 2015 og hefur hún leitt þó nokkrar erfiðar kjaradeilur til lykta. „Það koma fleiri deilur upp í hugann sem hafa verið snúnar og samningar jafnvel felldir í tvígang áður en komist var að samningi sem sátt var um. Ég hef á mínum stutta ferli lagt fram þrjár miðlunartillögur. Ef litið er yfir árin sést að það er frekar sjaldgæft, ég held að það hafi verið gert síðast árið 2008 áður en ég gerði það í ISAL-deilunni 2016 og svo aðra í deilu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og sveitarfélaganna 2017.“

„Beiting miðlunartillögu er ákveðið neyðarúrræði þegar samningsaðilar komast alls ekki að samkomulagi,“ segir Bryndís.

Aðrar deilur sem Bryndís minnist sem hafa verið erfiðar er sjómannadeilan og kjaradeila Bandalags háskólamanna (BHM). „Þetta er búið að vera mjög annasamur tími, róstusamur tími á vinnumarkaði þessi þrjú ár, og í raun og veru árin þar á undan líka. Það hefur gengið á ýmsu.“

Annasamt ár fram undan

„Það er alltaf erfitt þegar deilan er komin á þann stað að það eru verkfallsaðgerðir í gangi í viðkvæmri starfsemi eins og var í þessu tilviki. Það gerir deiluna enn þá flóknari.“

Þegar Bryndís hefur skipað gerðardóm stefnir hún að því að taka sér nokkrar vikur í sumarfrí, en alla jafna er skrifstofa ríkissáttasemjara í sumarfríi í júlí. „Svo tekur haustið við. Það eru langflestir samningar á vinnumarkaði lausir annaðhvort um áramótin eða þá í lok mars. Það er annasamt ár fram undan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert