Birgja sig upp fyrir Þjóðhátíð

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er drjúg tekjulind fyrir bæinn og ÍBV.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er drjúg tekjulind fyrir bæinn og ÍBV. mbl.is/Ófeigur

„Við erum komin með tvo aukakæla fyrir orkudrykki. Svo erum við að stilla upp núna bæði orkudrykkjum og súpukjöti, undirbúa pantanir fyrir pylsur og hamborgara og grillvörur. Það fer allt að fyllast núna,“ segir starfsmaður Krónunnar í Vestmannaeyjum. Undirbúningur fyrir Þjóðhátíð er nú á lokametrunum.

„Undirbúningurinn gengur mjög vel, bæði í Dalnum og í allri umsýslu í kringum hátíðina. Sjálfboðaliðar félagsins hafa verið duglegir að mæta í Dalinn og því er næstum allt að verða klárt,“ segja þau Jónas Guðbjörn Jónsson og Dóra Björk Gunnarsdóttir úr Þjóðhátíðarnefnd.

Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur

„Forsölu miða lýkur á miðnætti í kvöld og við erum sátt með söluna, hún er mjög svipuð og undanfarin ár.“ Dóra og Jónas segja að allt sé að smella saman núna á lokametrunum.

„Við vorum að grínast með það í gær að við gætum næstum haldið hátíðina um helgina hvað varðar Dalinn, en auðvitað eru síðustu verkin alltaf tímafrek. Við lítum á þetta eins og púsl og markmið okkar er að klára púslið fyrir kl. 14 föstudaginn 3. ágúst. Núna erum við að vinna í merkingum, lýsingu á hátíðarsvæðinu og úthlutun lóða fyrir hvítu tjöldin.“

Þá segja Dóra og Jónas að ráðstafanir varðandi öryggisgæslu í Herjólfsdal séu með sama sniði og undanfarin ár. „Við erum með vel mannaða gæslu núna í ár eins og undanfarin ár bæði þá göngugæslu, sviðsgæslu og svo sálgæslu. Þeir sem stýra þessum verkefnum hafa unnið hörðum höndum undanfarið við að gera góða hátíð enn betri, en Þjóðhátíð í Eyjum er alltaf í þróun þó svo að það séu 144 ár frá því að fyrsta hátíðin var haldin. Við munum auka myndavélagæsluna og svo erum við í góðu samstarfi við lögreglu og Heilbrigðisstofnun Suðurlands með allt sem snýr að þeim.“

Talsmenn hátíðarinnar segja að gæslan í Herjólfsdal verði vel mönnuð …
Talsmenn hátíðarinnar segja að gæslan í Herjólfsdal verði vel mönnuð líkt og undanfarin ár. mbl.is/Ófeigur

Með gáma niðri á bryggju og auka geymslupláss

Ingólfur Arnarsson hjá Karli Kristmanns umboðs- og heildverslun, segir að undirbúningur fyrir næstu viku hafi staðið í mánuð hjá fyrirtækinu, enda sé um stærstu helgi ársins að ræða. „Það er mjög mikið að gera. Við erum með gáma niðri á bryggju og auka geymslupláss. Við reynum að hafa nóg af öllu fyrir alla.“

Heildverslunin sér um matvörur og drykki fyrir veitingastaði í Vestmannaeyjum. „Við erum með brennivín, bjór franskar, bara allt það sem veitingastaðir og sjoppur þurfa,“ segir Ingólfur.

„Við seljum líka allt sem fer í Dalinn. Pössum að eiga nóg af öllu. Við erum að vinna fyrir Ölgerðina sem er með samning við ÍBV um kostun og annað. Við pössum að allt sé til og ef eitthvað vantar hafa Eimskip og Herjólfur reddað okkur í gegnum Landeyjahöfn. Við erum búin að gera þetta svo lengi.“

Ingólfur segir mikilvægt að gott samstarf sé á milli bæjarbúa þegar kemur að Þjóðhátíð svo allt gangi sem best fyrir sig. „Við pössum að eiga allt til og gerum það í samstarfi við fólkið hérna innanbæjar, Þjóðhátíðarnefndina og ÍBV. Við eigum í mjög góðu samstarfi. Það skiptir okkur miklu máli að þetta gangi vel og samfélagið í heild sinni líka. Það njóta allir góðs af þessu.“

Þjóðhátíðin hefst á föstudaginn í næstu viku og nær svo hámarki á sunnudagskvöldið með brekkusöng í Herjólfsdal. Að sögn talsmanns Sæferða gæti reynst erfitt að fá miða í Herjólf  þessu. „Þetta er orðið ansi þétt hjá okkur.“ Það ætti þó að vera minna mál fyrir tilvonandi Þjóðhátíðargesti að næla sér í miða í Herjólfsdal. Þá má nálgast hér.  

Ingó veðurguð kemur til með að leiða brekkusönginn á sunnudagskvöldinu …
Ingó veðurguð kemur til með að leiða brekkusönginn á sunnudagskvöldinu líkt og undanfarin ár. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert