„Hann hefur tapað minni virðingu“

Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi.
Steinar Berg Ísleifsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Á þeim tíma sem skipti máli á ferli Bubba þá stóð ég eins og klettur við hliðina á honum og aðstoðaði hann. Þá var hann alveg skýr í kollinum og ég líka,“ segir Steinar Berg Ísleifsson í samtali við mbl.is.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Bubba Morthens tónlistarmann og Ríkisútvarpið ohf. til greiðslu miskabóta m.a. vegna meiðyrða sem Bubbi lét falla um Steinar Berg í sjónvarpsþættinum Popp- og rokksaga Íslands á RÚV í mars árið 2016 sem RÚV endursýndi og gaf að lokum út á DVD-diskum.

Steinar segist vera ánægður með dóminn og sérstaklega þá niðurstöðu að RÚV hafi einnig verið dæmt.

„Ég er sérstaklega ánægður með að RÚV hafi líka verið dæmt. Það var kannski ekki eins skýrt fyrir mér,“ segir Steinar sem segist hafa sent bréf á RÚV og leitað sátta en fengið hrokafullt svar til baka.

„Það var nú eitt af því sem leiddi til þess að við ákváðum að fara í þetta mál. Ég er ánægður að RÚV skuli þurfa að biðjast opinberlega afsökunar á því að miðla þessum ósóma til þjóðarinnar,“ bætir Steinar við.

Bubba og RÚV var í dómnum gert að greiða Steinari samtals 500 þúsund krónur í miskabætur sem og málskostnað Steinars. Steinar segir málið ekki hafa snúist um peninga en er ánægður með niðurstöðuna.

„Það er mjög ánægjulegt að það kosti mann ekki að sækja réttlætið,“ tekur hann fram.

Steinar og Bubbi hafa ekki átt í samskiptum síðan málið var höfðað. Steinar sér það ekki fyrir sér að þeir komi til með að grafa stríðsöxina.

„Hann hefur tapað minni virðingu,“ segir Steinar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert