Snýst um að gera en ekki að vera

Elliði Vignisson hefur verið ráðinn nýr bæjarstjóri Ölfus.
Elliði Vignisson hefur verið ráðinn nýr bæjarstjóri Ölfus. Ljósmynd/Aðsend

„Ölfusið stendur frammi fyrir sögulega miklum tækifærum sem ég veit að kjörnir fulltrúar og íbúar hafa tækifæri á að nýta. Að fá að taka þátt í því eru forréttindi sem ég stend auðmjúkur frammi fyrir,“ segir Elliði Vignisson, nýráðinn bæjarstjóri Ölfuss, um nýja starfið í samtali við mbl.is.

Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi nú fyrr í dag að ráða Elliða í starfið en hann hefur verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjabæ síðastliðin tólf ár. Elliði mun hefja störf 9. ágúst og ætlar að nýta næstu vikur vel til þess að kynna sér stöðu sveitarfélagsins.

„Að vera bæjarstjóri er mjög veigamikið embætti og það má aldrei snúast um að vera, það verður að snúast um að gera. Til að geta gert þá þarf maður að vera vel inni í hlutunum,“ segir Elliði um verkefni næstu þriggja vikna.

Elliði hafði hugsað sér að skipta um starfsvettvang og færa sig yfir í einkageirann í kjölfar starfsloka hans hjá Vestmannaeyjabæ og segir mörg álitleg tækifæri hafa staðið til boða. Starfið sem bæjarstjóri Ölfuss var hins vegar tækifæri sem hann gat ekki hafnað.

„Eins og margir vita stóð ég frammi fyrir nýjum ákvörðunum í kjölfarið á seinustu sveitarstjórnarkosningum og gaf mér góðan tíma. Ég er þakklátur fyrir þau mörgu tækifæri sem borin voru upp við mig en eftir að hafa skoðað þetta vandlega þá fannst mér ég ekki geta litið framhjá þeim tækifærum sem sannarlega eru til staðar í Ölfusinu,“ segir hann.

Hann telur Ölfus standa frammi fyrir miklum vaxtatækifærum enda sé sveitarfélagið stórt og mikið.

„Inni á þessu svæði er gríðarlega mikill jarðvarmi sem verið er að nýta og jafnvel hægt að nýta enn betur. Það er bæði fiskihöfn og útflutningshöfn. Mikil nálægð við alþjóðaflugvöll og síðan náttúrulega nábýli við Reykjavík og sterk sveitarfélög þar í kring. Þegar allt þetta er tekið saman þá finnst mér það forréttindi að fá að taka þátt í að nýta þessi tækifæri enn betur,“ útskýrir Elliði sem hlakkar til að kynnast samfélaginu í Ölfusi enn betur.

Elliði mikill fengur fyrir Ölfus

„Við teljum það mikinn feng fyrir sveitarfélagið að fá Elliða til liðs við okkur. Hann hefur sýnt og sannað að í honum býr kraftur sem eftir er tekið, einlægur talsmaður síns samfélags, sókndjarfur baráttumaður fyrir sína umbjóðendur og faglegur rekstrarmaður.

Ölfusið stendur nú frammi fyrir ómældum tækifærum sem mikilvægt er að stýrt verði af festu og ákveðni. Markmið okkar er að byggja hér upp samfélag sem sameinar kosti þess að búa í nánu samfélagi á landsbyggðinni, með sterka innrigerð og öflugt atvinnulíf og þess að geta nýtt þá miklu kosti sem fylgja því að vera í nábýli við borgina. Með þetta í huga bjóðum við Elliða velkominn til starfa," er haft eftir Gesti Þór Kristjánssyni, forsetja bæjarstjórnar Ölfuss, í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert