Hún er miklu meiri sjómaður en ég

„Besti eiginleikinn á skútu sem maður lærir strax er að …
„Besti eiginleikinn á skútu sem maður lærir strax er að bera fulla virðingu fyrir náttúruöflunum. Maður storkar þeim ekki svo glatt. Svo er það þessi stöðugi útvörður. Ein lítil mistök geta verið dýrkeypt þannig að sigla svona fleygi er áskorun,“ segir Egill en þau hjón sigla eikarskútu öll sumur, aðallega um sænska skerjagarðinn. mbl.is/Ásdís

Hjartað slær í skútunni Sjófuglinum þessa dagana hjá Agli og Tinnu, en þau eiga þó afdrep á Íslandi þar sem þau hafa vetursetu. Úr íbúðinni er að sjálfsögðu útsýni yfir hafið sem þau unna og hafa kynnst rækilega síðustu fjögur árin, en þau hafa siglt skútu sinni frá vori og fram á haust síðan 2015.

Í stuttu stoppi á Íslandi nær blaðamaður í skottið á sæförunum tveimur og fær að heyra sögur af siglingum og hinum ævintýralega nýja lífstíl sem þau njóta til hins ýtrasta.

Hlekkjaður við stýrishúsið

„Ég er alinn upp við sjómennsku og umstang í kringum báta, en faðir minn var með útgerð á Skaganum og afi minn var stýrimaður og skipstjóri framan af ævinni. Þó að ég muni ekki eftir því, þá var ég kominn til sjós tveggja ára gamall, það voru engir leikskólar á þeim tíma á Akranesi, mamma vann á sjúkrahúsinu og því var ekki um annað að ræða en pabbi tæki mig með í róður. Þetta var lítill dekkbátur og ég var hlekkjaður við stýrishúsið. Síðar fluttum við til Reykjavíkur og pabbi hafði bát í höfninni í Reykjavík. Afi reri með honum og stundum fór ég með. Afi var ótrúlegur fróðleiksbrunnur um allt sem viðkom sjómennsku,“ segir Egill.

Hefurðu alltaf kunnað vel við þig á sjó?

„Já, mér líður vel til sjós. Í mínum draumum sá ég mig á litlu fleyi og lengi vel fletti ég og las í bátablöðum sjóferðasögur af öllu tagi og hafði á einhverjum tímapunkti orðið mér út um skipstjórnaréttindi, eða pungaprófið. En það var fyrir orð Tinnu að ég lét verða af þessu og við í sameiningu réðumst í að kaupa bát. Það að eiga bát af þeirri gerð sem við erum með kallar á nýjan lífsstíl og felur í sér mikla ábyrgð. Að annast um trébát af þessari stærð er eiginlega fullt starf, ef það á að vera eitthvert vit í þeirri umönnun,“ segir Egill.

Egill og Tinna segja fátt skemmtilegra en að fá barnabörnin …
Egill og Tinna segja fátt skemmtilegra en að fá barnabörnin með á Sjófuglinn. Hér eru þau Tinna Vigdís Gunnlaugsdóttir og Þór Gunnlaugsson með afa og ömmu. Ljósmynd/ Gunnur von Matern

Að kasta sér fram af brún

Sjófuglinn, sem þau fundu í Lemmer í Hollandi, heillaði Egil strax og raunar Tinnu líka, en hún segir að sér hafi nánast sundlað við þá tilhugsun að sigla þessum stóra báti, sem var eiginlega lítið skip.

„Egill spurði mig með glampa í augunum hvernig mér litist á og ég sagði að hann væri mjög fallegur – ég held reyndar að ég hafi sagt að mér fyndist hann sætur. En svo spurði ég hann hvort hann héldi virkilega að við gætum siglt þessu skipi, bara tvö! Þegar hann svaraði ákveðið; já, ákvað ég bara að trúa því og treysta.“

Blaðamaður nefnir að ef hann stæði frammi fyrir stórri tréskútu, án neinnar siglingareynslu, myndi hann ekki vita hvað sneri upp og hvað niður.

„Það er það sem er svo skemmtilegt. Að kasta sér fram af brúninni, láta slag standa. Stundum er það eina leiðin,“ segir Egill og nefnir að þá sé allt hik og hikst aðeins til þess að manni fatast flugið.

Sænski skerjagarðurinn hefur heillað Egil og Tinnu. Hér lúrir Sjófuglinn …
Sænski skerjagarðurinn hefur heillað Egil og Tinnu. Hér lúrir Sjófuglinn undir regnboga í sænskri höfn. Ljósmynd/Tinna Gunnlaugsdóttir

„Allt er þetta áhætta, en ég ákvað bara að taka í styrka hönd Egils og trúa á þekkingu hans, getu og innsæi. Ég kyngdi hræðslunni við að verða sjóveik og e.t.v bara dauðhrædd og ómöguleg þegar við yrðum komin út á opið haf í mikinn velting. En þessar áhyggjur reyndust sem betur fer óþarfar, ég hef ekki fundið fyrir sjóveiki,“ segir Tinna.
„Og ekki heldur hræðslu.“

„Hún er miklu meiri sjómaður en ég,“ segir Egill, sem segist sjálfur ekki hafa haft mikla þekkingu á seglskipum. „En ég dreif mig á seglanámskeið og svo er þetta bara spurning um að læra af reynslunni og enginn verður fullnuma í þessu fremur en í nokkru öðru fagi,“ segir Egill.

Sænski skerjagarðurinn heillar

Þegar eikarskútan var sjóklár var bara eftir að selja húsið og leggjast í siglingar, sem þau og gerðu.

„Það var komið að því hvort eð var að fara að minnka við okkur eftir 37 ár á sama stað, orðin bara tvö í heimili. Við erum samt ekkert alfarin. Við erum hér yfir vetrarmánuðina, enn sem komið er að minnsta kosti og Egill er auðvitað ekkert hættur syngja og semja tónlist. Sjálf nýt þess að lesa og bæta við mig þekkingu og fór til dæmis í sænskunám og er að klára BA-ritgerðina mína núna. Ég ákvað að skrifa um þeirra mikilvirka kvikmyndahöfund, Ingmar Bergmann, en í ár eru 100 ár frá fæðingu hans. Þetta hefur verið fjölbreytt nám og skemmtilegt, heilmikill lestur, og bókmennta- og samfélagssaga. Hvað leiklistina varðar, þá verður tíminn bara að leiða í ljós hvort ég stígi aftur á svið eða ekki,“ segir Tinna og virðist mjög sátt við hlutskipti sitt í dag með annan fótinn úti á sjó.

Fjölskyldan mætt og tilbúin í siglingu. Ólafur Egill, Tinna, Gunnur …
Fjölskyldan mætt og tilbúin í siglingu. Ólafur Egill, Tinna, Gunnur von Matern, Gunnlaugur Egilsson og börnin fyrir framan eru Tinna Vigdís og Þór, svo Egill og Egill Ólafsson yngri og fyrir framan þá er Amy Herdís Antonsdóttir og Eyja Ólafsdóttir. Við hlið þeirra er Ellen Erla Egilsdóttir og Esther Talía Casey. Ljósmynd/Gunnur von Matern


Hjónin segjast hafa hingað til haldið sig í grennd við Norðurlöndin.

„Við höfum siglt mikið í kringum Danmörku og eyjarnar þar, farið bæði suður fyrir í fjónska eyjahafið og norður fyrir í Kattegat. Líka niður til Þýskalands. Við höfum líka siglt vatnaleiðina þvert í gegnum Svíþjóð. Mest höfum við þó siglt í sænska skerjagarðinum og upp með allri austurströnd Svíþjóðar. Við fáum eiginlega ekki nóg af því. Það er svo ótrúlega fallegt umhverfi. Og við eigum mikið eftir, Eystrasaltið er svo stórt. Við stefnum á Álandseyjar og svo Finnland, Gotland, Baltnesku löndin og Rússland. Möguleikarnir eru óþrjótandi. Við siglum á daginn og finnum svo fallega höfn og leggjum við bryggju á kvöldin, eða í fallegri vík þar sem við getum lagst við akkeri eða ból. Við gistum alltaf í bátnum og sofum hvergi betur,“ segir Tinna.

Vinnum saman eins og smurð vél

Hvernig er að vera svona tvö ein saman?

„Það er auðvitað áskorun líka,“ segir Tinna og hlær.

„Maður kynnist maka sínum á nýjan hátt en ekki bara honum, maður kynnist sjálfum sér líka á nýjan hátt við aðstæður sem þessar. Maður er í raun mest að takast á við sjálfan sig þegar á reynir,“ segir hún.

Er eitthvað sem kom þér á óvart við Egil eða sjálfa þig, Tinna?

„Við erum bæði lausnamiðuð og það hefur komið okkur þægilega á óvart. Við göngum í vandann og tökumst á við hann af skynsemi og án allrar örvæntingar, enda í raun ekki annað í boði úti á rúmsjó. Egill er líka alveg ótrúlega lunkinn við vél og búnað skipsins, ég hef horft á hann full aðdáunar takast á við ýmsar uppákomur af þrautseigju og yfirlegu – en auðvitað getur ýmislegt komið upp á og hlutir ganga úr sér, eins og við höfum reynt. Svo erum við bæði handlagin og vel liðtæk í öllu viðhaldi,“ segir Tinna.

„Tinna er mun lausnamiðaðri en ég, það verð ég að segja, hún gefst aldrei upp og ég gæti ekki siglt bátnum án hennar, það er á hreinu. Við þurfum að vinna saman eins og smurð vél og það hefur lukkast hingað til,“ segir Egill

„Við erum bæði ákveðin og tiltölulega stjórnsöm og það hefur gerst í gegnum tíðina að við höfum verið ósammála eins og gerist hjá öllum. En úti á sjó treysti ég algjörlega á Egil, þó að ég sé stundum pirruð á því að hann sé að skipa mér fyrir og þegar mikið er í gangi og mikið í húfi geta skipanirnar orðið svo margar að ég bara hringsnýst á punktinum. Einhverju sinni man ég að ég horfði á hann í örvæntingu og með tárin í augunum og sagði að þetta gengi bara ekki, ég yrði að komast í „hvíldarinnlögn“ eða eitthvað. Ég man ekki hvort hann beinlínis hló að mér, en síðan þá hefur þetta orðið að brandara okkar á milli, enda ekkert í boði að gefast upp. Það er bara einn skipstjóri um borð og þannig verður það að vera,“ segir Tinna.

Í stormi og niðamyrkri

„Þegar siglt er á skútu um reginhöf, er rétt að tileinka sér strax að bera fulla virðingu fyrir náttúruöflunum í hvívetna. Maður storkar þeim ekki svo glatt. Svo er það þessi stöðugi útvörður. Ein lítil mistök geta verið dýrkeypt þannig að sigla svona fleyi er áskorun,“ segir Egill og þau segja frá því þegar þau lentu í hremmingum á siglingu milli Svíþjóðar og Danmerkur. Veðurspáin hafði verið vandlega athuguð og héldu þau að þau myndu ná yfir fyrir veðrið en annað átti eftir að koma á daginn. Í fjórtán tíma börðust þau áfram, í lokin í kolniðamyrkri.

„Það þarf að að halda ró sinni. Við vorum óheppin eða ekki alveg nógu nákvæm þarna í þetta sinn við að taka veður og það skall líka á fyrr en spár sýndu. Við héldum að við næðum fyrir veðrið, en þetta voru leifar af El Niño-storminum sem náði alla leið inn í Eystrasaltið,“ segir Egill.

„Við vorum ekki hrædd en þetta var barátta,“ segir Tinna.

„Það slitnuðu stög og þá er ekkert gaman að vera til. Þá geta möstur farið að geiga, en þau eru enginn smásmíði. Þau eru eins og fimm hæða hús. Við vorum eina skipið á sjó að því er virtist þennan daginn. Það var ekkert nema nokkrar risastórar ferjur í órafjarlægð. Við vorum úti á miðju Eystrasalti þegar stormurinn skall á og okkur miðaði hægt, maður bara þæfist í öldunum,“ segir Egill.

Tinna segir þau ekki hafa náð til hafnar fyrr en eftir myrkur. „Það var óskemmtileg reynsla. 

Voru þið stressuð?

„Aðeins svona, jú. Það má svo lítið út af bera,“ segir Egill. „Ég var að berjast í fjórtán tíma við að ná niður seglum, binda laus stög, með áhyggjur af möstrum sem voru farin að jagast til og Tinna stóð við stýrið, sem er auðvitað úti og barðist við að halda sjó. Ekki gaman.“

„Þegar við vorum búin að binda bátinn, stöldruðum við ögn við, horfðumst í augu og féllumst í faðma. Okkur fannst gott að finna samstöðuna og viðurkenna hvort fyrir öðru að þetta hafði verið töff. Við sigruðum þessa orrustu og vorum enn á lífi og því fögnuðum við,“ segir Tinna.

Hjartað slær í skútunni Sjófuglinum þessa dagana hjá Agli og …
Hjartað slær í skútunni Sjófuglinum þessa dagana hjá Agli og Tinnu.

Siglum meðan heilsan leyfir

Sjáið þið framtíðina fyrir ykkur á sjó?

„Vonandi, en ég sé bara næsta dag. Ég sé bara að á þriðjudaginn ætla ég að sigla, og það nægir mér. Lífið er ekkert öðruvísi, það er alveg sama á hvaða aldri maður er, það er annað hvort núna eða ekki, einn dagur í senn,“ segir Egill.

Tinna nefnir að lífsstíllinn á sjó henti þeim vel; bæði verður lífið einfaldara og margt nýtt lærist í leiðinni.

„Þetta er líka skólun í nægjusemi, þó að báturinn sé rúmgóður í sjálfu sér eru vistarverurnar litlar og það fer enginn óþarfi um borð. Allt verður að hafa tilgang eða vera nauðsynlegt. Og þá einfaldar maður líka lífið,“ segir Tinna.

„Og hin hliðin á því að sigla er að við kynnumst fólki frá öðrum löndum sem hefur sama áhugamál. Við höfum eignast ótrúlega góða vini í ýmsum höfnum, sem við heimsækjum á hverju sumri og eigum samskipti við yfir veturinn. Svo þykir okkur voða gaman að fá gesti að heiman, bæði vini og fjölskyldu, barnabörnin auðvitað alveg sérstaklega. Þá er hátíð í Sjófuglinum,“ segir Tinna.

„Egill spurði mig með glampa í augunum hvernig mér litist …
„Egill spurði mig með glampa í augunum hvernig mér litist á og ég sagði að hann væri mjög fallegur – ég held reyndar að ég hafi sagt að mér fyndist hann sætur. En svo spurði ég hann hvort hann héldi virkilega að við gætum siglt þessu skipi, bara tvö! Þegar hann svaraði ákveðið; já, ákvað ég bara að trúa því og treysta,“ segir Tinna. Ljósmynd/Gunnur von Matern


„Fólk er svo oft að fresta því að gera það sem það dreymir og þó við séum kannski ekki á síðasta snúningi þá hallar á seinni hlutann og því ekki seinna vænna að láta svona drauma verða að veruleika. Tengdamóðir mín og fyrirmynd mín í lífinu á margan hátt segir stundum, „ég sé ekki eftir því sem ég gerði í lífinu en ég sé stundum eftir því sem ég gerði ekki“,“ segir Tinna.

„Ef maður telur ekki að maður sé í aðstöðu til þess að láta drauminn rætast er alltaf spurningin, get ég búið þess aðstöðu til? Get ég breytt einhverju til þess, þó það kunni að kosta fórnir. Maður verður oft vanafastari með árunum og þá þarf kannski meira til að breyta einhverju. Hitt er alltaf auðveldara,“ segir Tinna.

„En við höfum vissulega verið ákaflega lánsöm í lífinu og erum enn við góða heilsu og því ber að fagna og njóta. Er á meðan er. Við ætlum að sigla inn í sólarlagið,“ segir Tinna og brosir.

Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 






Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert