Fékk hugljómun um að kanna heiminn

Joff Sommerfield á veltipétrinum en hann er nú staddur á …
Joff Sommerfield á veltipétrinum en hann er nú staddur á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég hef viljað koma til Íslands í langan tíma. Ég hef skoðað margar myndir af eyjunni, það virðist sem þessi staður sé engum öðrum líkur,“ segir Joff Summerfield, Breti sem hjólar nú í kringum Ísland á svokölluðum veltipétri, forvera hins klassíska reiðhjóls. 

Joff segir fegurð Íslands vera einstaka og segir jafnframt að fjölbreytnin hafi komið á óvart. „Að sjá þetta allt hægt og rólega á hjólinu er yndislegt.“

Joff hefur frá árinu 1999 hjólað umhverfis jörðina tvisvar sinnum á veltipétri sínum þó að hann hafi ekki komið til Íslands áður. Hringferðin í kringum Ísland er hluti af stærra ferðalagi Joff, en hann hefur nú þegar hjólað 45.000 kílómetra leið í gegnum meðal annars Bandaríkin, Kína og Indland. Á næsta ári hyggst hann svo hjóla um Suður-Ameríku.

„Sérhvert land skilur eitthvað eftir sig. Ísland minnir mig á Tíbet fyrir tæra náttúrufegurðina og fyrir að skilja eftir þessa tilfinningu að finnast maður vera algjörlega einangraður. Ísland er án efa á háum stalli í huga mínum.“

Krakkar á Akureyri fá mynd með Joff og veltipétrinum.
Krakkar á Akureyri fá mynd með Joff og veltipétrinum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Joff segir að hingað til hafi verið frábært að hjóla á Íslandi og að vegirnir hafi ekkert angrað hann. „Hingað til hafa þeir verið fullkomnir. Ökumennirnir hafa verið frábærir og alltaf gefið mér nægilegt rými til að hjóla þegar þeir keyra fram hjá. Ég hjóla líka alltaf frekar snemma á morgnana og þá er lítil umferð.“

Veltipéturinn ekki þægilegur

Joff segir veltipéturinn hafa komið til þegar hann byrjaði fyrst að afla sér tekna fyrir þó nokkrum árum. „Ég fór í ódýrt frí frá London til Amsterdam á fimmtíu ára gömlu hjóli sem ég átti einhvers staðar. Í þessari ferð fékk ég hugljómun,“ segir Joff og bætir við „Svona átti ég að sjá heiminn, á hjóli.“

Þá hafi Joff viljað vera á eigin hjóli þegar hann færi að kanna heiminn og að veltipéturinn hafi heillað hann.

Joff segir ekki að veltipéturinn sé þægilegur. Hann hefur samt …
Joff segir ekki að veltipéturinn sé þægilegur. Hann hefur samt sem áður ferðast tæplega 60.000 kílómetra á honum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þannig að ég fór á safn til að sjá hvernig svona hjól eru gerð og fór svo heim og gerði fyrsta hjólið mitt. Á því fór ég svo til Parísar og fagnaði aldamótunum. Ekki vissi ég þá hvert þessi frábæru hjól ættu eftir að flytja mig. Hér er ég í dag, 40 lönd og 58.000 kílómetrar að baki á veltipétrinum mínum.“

Aðspurður hvort veltipéturinn sé þægilegur er Joff hreinskilinn í svari sínu: „Nei.“

Hjólaði að Everest

Joff segir vinsemd Íslendinga og fegurð náttúrunnar hafa farið langt fram úr hans björtustu vonum. „Rigningin og vindurinn hafa ekki yfirgefið mig en mér er eiginlega alveg sama. Það gerir ferðalagið bara raunverulegra. Ég myndi ekki vilja hafa þetta of auðvelt.“

Joff á leið sinni að grunnbúðum Everest.
Joff á leið sinni að grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Crazyguyonabike

Joff segir margt standa upp úr á ferðum sínum en að eftirminnilegast hafi verið þegar hann hjólaði upp að grunnbúðum Everest-fjalls. „Í um 5.500 metra hæð og augljóslega ekkert malbik á leiðinni var ég algjörlega uppgefin. En mér leið alveg ótrúlega að hafa hjólað þarna.“

Labbaði inn í hús og krafðist matar

Ýmislegt skondið hefur á daga Joff drifið á ferðum hans.

„Einu sinni þegar ég var í Kína stoppaði ég til að borða á kaffihúsi. Þetta var í sveitinni þannig að það er allt frekar látlaust. Ég fór inn á kaffihúsið með hjólið, settist niður og bað um mat. Þau gáfu mér mat tilhlýðilega en þegar ég var tilbúinn að fara og ætlaði að borga virtust þau eitthvað rugluð. Það sem ég hafði gert var að labba inn á heimili hjá einhverju fólki og krefjast matar! Ég var mjög vandræðalegur en þau voru svo vingjarnleg og öll fjölskyldan fór út til að veifa á eftir mér.“

Joff segir annað eftirminnilegt atvik vera honum ofarlega í huga.

„Ég var í Ástralíu og ætlaði að tjalda á bak við bensínstöð. Konan sem vann þar bað mig um að passa mig á vatnsúðaranum en ég sá engan þannig að ég setti bara tjaldið mitt upp. Klukkan fimm um morguninn vakna ég svo allt í einu við kraftmikla bunu sem kemur upp af botni tjaldsins. Úðararnir voru ofan í jörðinni! Beint undur tjaldinu! Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem það var grenjandi rigning inni í tjaldinu en þurrt fyrir utan það.“

Joff segist ætla að gefa sér góðan tíma á Íslandi og njóta sín áður en hann heldur ferðum sínum áfram í lok ágúst. Aðspurður segir hann ferðalag sitt hafa byrjað út frá ástríðu hans til að sjá hluti með eigin augum en ekki í gegnum aðrar manneskjur eða fjölmiðla.

„Ég vil kanna og sjá allt sjálfur. Snerta jörðina. Af hverju tvisvar? Það er alltaf meira að sjá.“

Fylgjast má með ferðum Joff á Instagram-reikningi hans hérna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert