„Ljótustu samskipti sem ég hef átt“

Katrín Sif segir ljósmæður þreyttar eftir rimmuna við ríkið, en …
Katrín Sif segir ljósmæður þreyttar eftir rimmuna við ríkið, en þær hafi þó aldrei bugast. Ljósmynd/Aðsend

„Nú krossum við fingur og vonum að gerðardómur verði skipaður hratt og vel og skili góðum og réttlátum úrskurði. Ég held maður slaki ekki alveg á fyrr en þetta er alveg komið í höfn. Við ætlum okkur það að fylgja þessu vel eftir og anda ofan í hálsmálið á þeim sem taka við, ef svo má segja,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands, sem hefur verið í sviðsljósinu undanfarna mánuði vegna djúprar kjaradeilu ljósmæðra og íslenska ríkisins.

Það einkenndi deiluna hve miklar tilfinningar voru í spilunum og hve ríkan stuðning ljósmæður fengu frá almenningi á köflum. Eftir því sem á leið varð deilan persónulegri og djúpstæðari, en Katrín Sif segir að allt frá byrjun hafi ljósmæður mætt köldu viðmóti samninganefndar ríkisins og ríkisvaldsins. Hún segir ljósmæður enn vinna úr „ofboðslegri reiði“ gagnvart ríkisvaldinu sem risti djúpt. Samskiptin hennar við samninganefnd ríkisins séu þau ljótustu sem hún hafi átt.

Fjölmargar ljósmæður sögðu upp störfum meðan á deilunni stóð og Katrín Sif segir alls óvíst hve margar þeirra snúi aftur. Átta ljósmæður á Landspítalanum hafa nú dregið uppsagnir sínar til baka. Katrín Sif er ein þeirra ljósmæðra sem sögðu upp störfum og hefur hún sótt um nýtt starf innan heilbrigðiskerfisins sem ekki er ljósmóðurstaða.

Katrín Sif (lengst t.h.) gefur ríkisstjórninni rauða spjaldið á Austurvelli …
Katrín Sif (lengst t.h.) gefur ríkisstjórninni rauða spjaldið á Austurvelli ásamt öðrum ljósmæðrum. Ljósmynd/Aðsend

„Ljótustu samskipti sem ég hef átt“

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilunni var samþykkt með 95,1% atkvæða á fundi ljósmæðra í vikunni. Tillagan felur í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um helsta deilumálið, það hvort launasetning ljósmæðra sé í samræmi við álag, menntun og inntak starfs ljósmæðra og að hvaða leyti þessir þættir eigi að hafa áhrif á launin.

Ríkissáttasemjari skipar þrjá í gerðardóminn, sem skal ljúka störfum fyrir 1. september næstkomandi. Katrín Sif segir að enn sé fullnaðarniðurstaða ekki í hendi og að ljósmæður muni áfram berjast fyrir sínu.

Aðspurð viðurkennir hún að ljósmæður séu þreyttar eftir rimmuna við ríkið, en segir þær þó aldrei hafa bugast. Samhugur hafi ríkt í herbúðum ljósmæðra allan tímann, jafnvel þótt þær hafi ekki verið sammála gegnum allt samningaferlið. Tæplega 70% ljósmæðra greiddu atkvæði gegn samningnum í júní. 

„Jafnvel þótt ljósmæður hafi ekki allan tímann verið sammála um hvort það ætti að stíga til hægri eða vinstri, þá hefur okkur í nefndinni verið sýnt alveg ótrúlegt mikið og sterkt traust. Það eimir enn eftir af því að samhugurinn hefur verið alveg ótrúlega sterkur. Aftur á móti er eftir alveg ofboðsleg reiði sem við þurfum að vinna úr, þá fyrst og fremst gagnvart ríkisvaldinu vegna framkomu ríkisins gagnvart ljósmæðrum gegnum tíðina. Þetta ristir mjög djúpt,“ segir hún.

Katrín Sif nefnir að reiðin sé ekki aðeins tilkomin vegna hinnar eiginlegu deilu, heldur hafi vinnubrögð samninganefndar ríkisins sem slík haft mikið að segja og viðmót ríkisins gagnvart ljósmæðrum.

„Við höfum mætt þannig viðhorfi og framkomu við samningaborðið að maður skilur hvers vegna það er ekki talað um það sem gerist inni í lokuðu samningsherberginu. Það sem á sér stað þar er alls ekki fallegt og ekki til eftirbreytni. Þar miðast allt við niðurlægingu og niðurbrot, þarna eru ljótir starfshættir og þarna átti ég í ljótustu samskiptum sem ég hef átt,“ segir Katrín Sif. 

„Við ætlum okkur það að fylgja þessu vel eftir og …
„Við ætlum okkur það að fylgja þessu vel eftir og anda ofan í hálsmálið á þeim sem taka við, ef svo má segja,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar Ljósmæðrafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Ljósmæður hafi sýnt fagmennsku og auðmýkt

„Ég hef talað við fjöldann allan af fólki í gegnum ferlið, fólk sem hefur áður setið í þeim sætum sem við sátum í. Það kunna allir sömu söguna af þessum hroka, yfirlæti og skorti á lausnamiðuðum samskiptum. Þá fór ég að hugsa þetta dýpra; er það þetta sem skattpeningarnir okkar fara í? Sýndarviðræður til þess að geta sagt að viðræður standi yfir og fólk sé að reyna að komast að lausn, en í raun setjist fólk niður, fund eftir fund, til þess eins að geta sagt að viðræður standi yfir og að í raun sé ekkert að gerast,“ segir Katrín.

Spurð hvort ljósmæður hafi sjálfar gerst sekar um stífni og óheiðarleg vinnubrögð kveður hún nei við.

„Ég held við höfum gætt þess til hins ýtrasta að sýna fagmennsku og auðmýkt. Við gengum inn í þessar samningaviðræður svokölluðu með það viðhorf að þarna væri fólk sest niður til að semja, miðla málum og finna lausn. Síðan upplifðum við það að lengst framan af átti sér ekki stað neitt samtal, heldur var niðurstaðan fyrirframákveðin af hálfu ríkisvaldsins. Það var alveg sama hvaða gögn eða rök við komum með, það var öllu sópað fram af borðinu. Þar að auki höfðu viðsemjendur okkar enga þekkingu á því við hverja þau voru að semja. Lengi vel heyrði maður í orðræðunni að þau álitu okkur einhvers konar aðstoðarkonur lækna. Maður ímyndaði sér að þau sæju fyrir sér að við þurrkuðum svitann af læknunum meðan þeir ynnu vinnuna,“ segir hún.

Katrín segir að lítið sé eftir á tankinum hjá ljósmæðrum eftir viðræðurnar. „En við allt mótlæti hefur maður samt einhvern veginn fengið innspýtingu á tankinn og fyllst meiri eldmóði. Þegar reynt var að splundra samstöðunni hjá okkur, þá virkaði það öfugt og við tvíefldumst í því að þetta skyldi leitt til lykta. Við stóðum saman alla leið,“ segir hún. 

„Teknar út fyrir sviga“ í viðræðunum

Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun um kjör ljósmæðra birti fjármálaráðuneytið á vef sínum 3. júlí gögn um stöðugildi ljósmæðra, þróun dagvinnulauna og þróun heildarlauna. Katrín segir að ljósmæður hafi að vissu leyti verið teknar út fyrir sviga gagnvart öðrum stéttum og notaðar sem „fórnarkostnaður fyrir ímyndaðan stöðugleika á vinnumarkaði“.

„Á því tímabili sem við höfum verið í samningaviðræðum hefur verið samið við aðrar stéttir um sambærilegar og mun [meiri] hækkanir en við höfum fengið án þess að það hafi þurft að ganga fram með blóði, svita og tárum og talað hafi verið um óstöðugleika á vinnumarkaði og höfrungahlaup o.s.frv.,“ segir Katrín Sif. 

„Einhverra hluta vegna vorum við ljósmæður teknar út fyrir sviga sem fórnarkostnaður fyrir einhvern ímyndaðan stöðugleika á vinnumarkaði. Sá stöðugleiki er löngu farinn og fór með hækkunum kjararáðs á sínum tíma. Það er eitthvað sem við eigum eftir að sjá eftir áramótin þegar samningar losna á almennum markaði að það skiptir engu máli hvernig samið er við okkur ljósmæður,“ segir hún og bætir við að ljósmæður hafi átt inni fyrir öllum þeim kröfum sem farið hafi verið fram á.

„Það að þetta mál hjá okkur hafi dregist svona rosalega vegna þess að hætta væri á höfrungahlaupi, á ekki við rök að styðjast. Ég held að við höfum verið dálítið dýr fórnarkostnaður fyrir þennan ímyndaða stöðugleika,“ segir hún. 

En hvað býr að baki því að ljósmæður hafi verið „teknar út fyrir sviga“? 

„Ég hef mikið velt þessu fyrir mér. Er þetta þekkingarleysi á mikilvægi starfa kvenna? Er þetta sögulegt, vegna þess að konur hafa gjarnan verið duglegar að hafa samviskubit, forðast að trana sér fram og verið þakklátar fyrir að hafa vinnu og lagt sitt af mörkum í samfélaginu án þess að krefjast launa fyrir það? Gengur ríkisvaldið að því vísu að konur séu drifnar áfram af einhverri móðurlegri tilfinningu? Er þetta hrein og klár vanvirðing við okkar starfsframlag? Eitthvað af þessu á við, því þessi framkoma, þöggun og yfirlæti sem okkur hefur mætt eru á engan hátt eðlileg,“ segir Katrín Sif. 

Hreint hugsjónastarf í samninganefnd ljósmæðra

Í opinberri umræðu fór mikið fyrir Katrínu Sif og starfssystrum hennar í samninganefnd ljósmæðra. Hún segir að þær hafi unnið eftir sterkri hugsjón og allar verið í fullum störfum á meðan.

„Þetta eru allt ljósmæður í fullri vinnu með stór heimili og eru drifnar áfram af réttlætiskenndinni. Sjálf sinni ég bæði heimafæðingum og heimaþjónustu og er með stöðu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja,“ segir Katrín Sif, en hún sagði upp störfum meðan á deilunni stóð og er uppsagnarfrestur til 1. september nk. Starfið er tengt heilbrigðisþjónustu og er ekki ljósmóðurstaða. „Ég ætla að bíða og sjá hver niðurstaða gerðardóms verður, síðan sé ég til með þetta starf,“ segir Katrín Sif. 

Guðlaug María Sigurðardóttir, sem einnig er í nefndinni, starfar líka á Suðurnesjunum, bæði í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Hafdís Ólafsdóttir starfar við mæðravernd á heilsugæslunni. Þær Gréta María Birgisdóttir og Ella Björg Rögnvaldsdóttir störfuðu báðar á meðgöngu- og sængurlegudeild og sögðu báðar upp störfum nýverið. Óvíst er hvort þær snúi báðar til baka.

„Þessi hópur er með mismikla reynslu og þekkingu inni í heilbrigðiskerfinu. Við erum þrjár sem erum dálítið eldri og búnar að vera lengi í heilbrigðiskerfinu. Við höfum líka hjúkrunarmenntun á bakinu. Síðan eru tvær sem eru tiltölulega nýkomnar inn og hafa ferskari sýn á heilbrigðiskerfið. Þetta er rosalega sterkur hópur og við höfum unnið alveg ótrúlega vel saman og þétt,“ segir Katrín Sif og nefnir að engin ljósmæðranna hafi menntun í fögum á borð við hagfræði, viðskiptafræði eða lögfræði. „Þetta eru bara harðduglegar ljósmæður í fullri vinnu samhliða þessu með stór heimili. Þetta hefur verið mikið hugsjónarstarf og baráttumál,“ segir Katrín Sif. 

Fjármálaráðherra hafi takmarkaða þekkingu 

Katrín Sif segir að krafa ljósmæðra hafi frá upphafi verið að grunnlaunaröðun þeirra yrði hækkuð. „Það er enn krafan og til að stéttin haldist við og konur haldist í starfi, þá þarf þessi leiðrétting að eiga sér stað,“ segir Katrín Sif.

„Í öllu þessu ferli höfum við aldrei fengið neitt í gegn. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvað að hækkunin yrði 4,21% og að staða og bakgrunnur hverrar stéttar fyrir sig skipti engu máli, eða það að við læstumst inni í SALEK-samkomulaginu sem býður ekki upp á neina leiðréttingu. Við þurfum að fá leiðréttingu núna, en það hefur aldrei verið svigrúm fyrir það og aldrei verið á okkur hlustað. Ekki af samninganefnd ríkisins og fjármála- og efnahagsráðherra hefur aldrei viljað hitta okkur. Þessi fáu ummæli sem hann hefur haft um þessa deilu sýna að þekking hans á málinu er engin,“ segir hún.

„Manni hefði þótt eðlilegast að þessi hækkun kæmi í gegnum kjarasamninga og að tekið yrði tillit til gagna og stöðu stéttarinnar. Það er borðliggjandi að grunnlaunaröðunin er kolröng og öll gögn sýna það og sanna. Það er formsatriði að samninganefndin kynni sér viðmælendurna, um hvað málið snýst og hver rökin í málinu séu,“ segir hún.

Þekkt aðferð við einkavæðingu

Spurð hvort kjaradeilan hafi varanleg áhrif á ljósmæðrastéttina á Íslandi almennt séð og hvort stéttin sé að molna í sundur, segir hún að sá skaði hafi átt sér stað fyrir um 15 árum þegar hafið var að loka fæðingarstofum og skurðstofum víðs vegar um landið.

„Að mínu mati hefur átt sér stað ákveðin pólitísk refskák. Fullkomnar skurðstofur standa auðar á St. Jósefsspítala, í Keflavík, á Selfossi og víðar og safna nú ryki. Þessu var öllu lokað í einni svipan og öllum beint inn á Landspítalann sem þó var fyrir sprunginn og hafði ekkert bolmagn til að taka við öllum þessum fjölda,“ segir Katrín Sif.

„Þetta er þekkt aðferð til að stýra öllu inn í einkavæðingu. Álagið inni á Landspítala hefur verið ómanneskjulegt. Fólk hleypur hraðar og hraðar og allt frá árinu 2008 hefur verið allt of fátt starfsfólk, allt of lítið pláss og þjónustuþörfin gríðarlega mikil. Við höfum rosalega metnaðarfullt heilbrigðisstarfsfólk hér á Íslandi, alveg á heimsmælikvarða. Keppikeflið við að veita góða þjónustu við þessar bágu aðstæður hefur verið gríðarlega mikið, en að sama skapi tekur það ótrúlega mikið á hjá heilbrigðisstarfsfólkinu,“ nefnir Katrín Sif.

Heilbrigðisstarfsfólk að þrotum komið

Hún segir að heilbrigðisstarfsfólk á Landspítalanum hafi aldrei fengið svigrúm til að anda frá frá því álagið hafi byrjað að aukast eftir hrunið árið 2008. 

„Það sem maður upplifir núna er að margir eru að ganga á vegg. Síðan verða æ háværari raddirnar um að opinbera kerfið sé ekki að anna heilbrigðisþjónustunni og það þurfi að fara í meiri einkavæðingu og einkarekstur. Þetta er að mínu mati alveg rosalega hættuleg og lymskuleg þróun sem þarf að bregðast við og stoppa,“ segir hún. 

Katrín Sif nefnir að í löndum þar sem einkavæðing í heilbrigðisþjónustu er mikil, gangi heilbrigðiskerfin ekki upp.

„Við höfum sýnt hér að við getum veitt framúrskarandi þjónustu og erum með rosalega metnaðarfullt og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk. Við getum gert þetta svo vel, en klúðrað því auðveldlega ef við ætlum að fara að taka arð af okkar veikasta fólki. Þetta er borðleggjandi og það þarf að stoppa þessa þróun,“ segir Katrín Sif.

„Þessi barátta okkar núna er ákveðinn punktur yfir i-ið. Við höfum verið í kjarabaráttu í yfir 200 ár og þetta er ekki bara kjarabarátta, heldur barátta um að fá tilvist okkar staðfesta og störf okkar viðurkennd. Það er eins og þetta sé sjálfsagður hlutur og að við keyrum áfram á einhverri móðurtilfinningu frekar en að þetta sé viðurkennd starfsgrein sem ber að launa að verðleikum og hlúa að,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert