Andarnefjur gleðja landann

Andarnefja stekkur upp úr Pollinum.
Andarnefja stekkur upp úr Pollinum. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Andarnefjur léku sér og stukku um skammt frá landi á Pollinum á Akureyri í dag, við mikla hrifningu bæði heimamanna og ferðamanna. Samkvæmt Þorgeiri Baldursyni fréttaritara mbl.is er ekki algengt að þær komi svo nærri landi, en það kemur þó fyrir.

Vakti afhæfi andarnefjanna hrifningu ferðamanna sem stóðu og tóku myndir í gríð og erg, en Þorgeir segir að hvalirnir á pollinum hafi verið 6-8 talsins.

Andarnefjurnar svömluðu um skammt frá landi.
Andarnefjurnar svömluðu um skammt frá landi. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Andarnefjur hafa sést nærri landi víðar en bara á Akureyri undanfarna daga og létu hvalirnir sig til dæmis ekki vanta á Borgarfirði eystri í aðdraganda tónlistarhátíðarinnar Bræðslunnar, sem náði hápunkti á laugardagskvöld.

Heimamenn á Borgarfirði sögðu blaðamanni mbl.is á staðnum að það væri óalgengt að smáhveli létu sjá sig svona langt inni í firði, en andanefjuhópurinn í Borgarfirði taldi sex hvali, fjóra fullvaxta og tvo unga.

Myndband af andarnefjunum eystra, sem Hlynur Sveinsson tók í blíðskaparveðri síðasta fimmtudag, má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert