Leggja til varanlegar lausnir og neyðarúrræði

Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

„Rót vandans liggur í því að leigu- og húsnæðisverð almennt hefur hækkað um 100% á örfáum árum hjá núverandi borgarstjórn. Við erum með tillögur [um] hvernig er hægt að bæta markaðinn svo hann verði ekki svona skakkur en svo þarf líka að fara í neyðarúrræði þegar fólk er bókstaflega á götunni,“ segir Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Minnihlutinn í Reykjavík sendi frá sér yfirlýsingu fyrir helgi varðandi það „neyðarástand“ sem ríkir meðal heimilislausra í borginni og krafðist þess að aukafundur yrði haldinn í borgarráði Reykjavíkur um málaflokkinn. Formaður borgarráðs, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, varð við þeirri kröfu og hefur boðað fund klukkan ellefu á morgun.

„Það er gott mál og þá höfum við tækifæri til að leggja fram þær tillögur sem við erum með. Bæði varanlegar lausnir og líka neyðarúrræði. Það er í raun hvort tveggja sem vantar,“ segir Eyþór.

Tillögur verða lagðar fram á fundinum, bæði frá stjórnarandstöðunni í heild sem og einstaka flokkum. Þá hefur verið greint frá því að meirihlutinn ætli einnig að leggja fram tillögur á fundinum.

„Þó að þetta séu ólíkir flokkar [í minnihluta] þá erum við með sameiginlegan skilning á vandanum. Við viðurkennum þennan vanda og það þarf að taka á honum,“ segir Eyþór og bætir við, „þetta er eitt af stóru málunum og við sjáum ekki að neitt sé að gerast. Þess vegna fórum við fram á þennan aukafund.“

Eyþór segist ekki hafa heyrt af tillögum meirihlutans en er jákvæður fyrir góðum hugmyndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert