„Snúin“ framkvæmd á Þingvöllum

Þingvallavegur.
Þingvallavegur. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta eru framkvæmdir sem lengi hefur verið talað um að fara í, að lagfæra veginn frá þjónustumiðstöðinni yfir að Gjábakka,“ segir Einar Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, um vegaframkvæmdirnar sem eru að hefjast þar.

Hann segir að vegurinn sé orðinn um fjörutíu ára gamall og bendir á að tvær rútur hafi farið út af á vegakaflanum síðasta vetur og því sé brýnt að lagfæra hann.

Vegurinn verður byggður upp og breikkaður, auk þess sem tæpur kílómetri af vegriðum verður settur upp. Alls verður unnið við tveggja til þriggja kílómetra kafla fram á haust. Afgangurinn verður unninn á næsta ári en samanlögð lengd kaflans er 8,3 kílómetrar.

Rútur á Þingvöllum.
Rútur á Þingvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ökumenn sýni aðgát meðfram vatninu

Einar segir framkvæmdina nokkuð snúna og að þjóðgarðurinn leggi mikla áherslu á að verktakinn gangi vel um svæðið. Ákveðið var að loka öllum veginum til að starfsmenn gætu athafnað sig rúmt á veginum og að framkvæmdin myndi ganga hraðar fyrir sig.

Fyrir vikið verður allri umferð beint meðfram Þingvallavatni. „Við vonumst til þess að fólk fari að með fullri aðgát meðfram vatninu,“ segir hann og reiknar með því að umferð í gegnum þjóðgarðinn muni hægjast.

Viðkvæmt svæði

Verktakinn Þjótandi ehf. bauð lægst í framkvæmdirnar, eða rúmar 488 milljónir króna, og var tilboðinu tekið.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að Þingvallavegi verði lokað í fyrramálið. Hann segir svæðið vera viðkvæmt og að mörgu þurfi að hyggja.

Sérstök áhersla verður lögð á endurheimt staðargróðurs í vegfláa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert