Fjögur herbergi ónothæf vegna eldsvoða

Hótel Hella.
Hótel Hella. Ljósmynd/Aðsend

Hótelstjóri Hótels Hellu slökkti eldinn sem kom upp á salerni í einu hótelherbergjanna þar í gærkvöldi með slökkvitæki eftir að brunaviðvörunarkerfi hótelsins hafði farið í gang.

Skömmu síðar voru slökkviliðsmenn frá brunavörnum Rangárvallarsýslu mættir á vettvang.

Óskað var eftir aðstoð slökkviliðsins um klukkan hálftólf og fljótlega voru um 20 manns mættir á staðinn.

Að sögn Leifs Bjarka Björnssonar slökkviliðsstjóra bendir allt til þess að eldsupptök hafi verið í loftsræstiviftu á salerni. Hótelgestir voru í herberginu, sem er á fyrstu hæð, þegar eldurinn kom upp.

Rífa þurfti hluta af vegg á salerninu til að komast að glóð sem hafði komist þar inn undir. Einnig þurfti að rífa vegg niður á salerninu í herberginu fyrir ofan en þar höfðu plaströr bráðnað saman og lokast.

Slökkviliðið var fljótt á staðinn eftir að tilkynning barst um …
Slökkviliðið var fljótt á staðinn eftir að tilkynning barst um eldinn. mbl.is/Eggert

Reykurinn mikill 

Leifur Bjarki segir eldinn ekki hafa verið mikinn en reykurinn hafi aftur á móti verið „gífurlegur“. Vegna þess að útsogið var í plaströrum var reykurinn meiri en annars ætti að vera.

Hótelið var rýmt um leið og eldurinn kom upp og fékk slökkviliðið afnot af íþróttahúsi bæjarins sem er aðeins um 300 metra frá hótelinu.

„Veðrið var það gott að fólk var að miklum hluta bara úti. Það var 15 stiga hiti um nóttina og blankalogn. Aðstæður gátu ekki verið betri hvað það varðar,“ segir Leifur Bjarki.

Hótelbyggingin er tvískipt og kom eldurinn upp í nýrri hluta hennar. Að sögn Leifs tókst mjög vel til við reykræstingu og hafði slökkviliðið lokið störfum um tvöleytið í nótt.

Rýmingaráætlun gekk fullkomlega upp

Arnar Freyr Ólafsson, eigandi hótelsins, segir að slökkviliðið hafi verið komið á mettíma í gærkvöldi og allt hafi gengið eins og best verður á kosið. Öllum hótelgestum, sem voru langflestir erlendir, hafði verið komið fyrir á öðrum hótelum tveimur klukkutímum eftir að hringt var í Neyðarlínuna.

„Við sendum sérstakar þakkir til kollega okkar í Stracta hóteli og á Hótel Selfossi,“ segir hann.

Búið er að opna Hótel Hellu aftur, en hótelið er uppbókað út október. Fjögur herbergi eru þó lokuð tímabundið vegna aðgerða slökkviliðsins og þarf að taka salerni herbergjanna í gegn að sögn Arnars Freys.

„Við erum að þrífa hótelið og erum mjög lánsöm með að það er engin lykt.“

Hann bætir við að rýmingaráætlun hótelsins hafi gengið fullkomlega upp og fyrir vikið hafi engin hræðsla hafi gripið um sig á meðal hótelgesta og starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert