Mikið kvartað undan hjólafólki

Lögreglu hafa borist margar kvartanir undan reiðhjólafólki á höfuðborgarsvæðinu í …
Lögreglu hafa borist margar kvartanir undan reiðhjólafólki á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikið hefur verið kvartað undan reiðhjólafólki á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Eru margir hjólreiðamenn sagðir virða allar umferðarreglur að vettugi og skeyta í engu um aðra vegfarendur í umferðinni, að því er fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar.

Kveðst lögreglan ekki geta sagt til um það hversu margir haga sér með þessum hætti, en víst sé að tilkynningarnar séu fjölmargar og berist lögreglu daglega.

„Ábendingar eða kvartanir um reiðhjólafólk sem fer ógætilega hafa borist frá vegfarendum í öllum sveitarfélögum í umdæminu og segir það sína sögu. Þeir sem kvarta undan hjólareiðamönnum segja þá m.a. glannalega og hjóla í veg fyrir aðra vegfarendur, ýmist á akbrautum eða göngustígum,“ að því er segir í færslunni.

Eru þessir sömu hjólareiðamenn sagðir tillitslausir með öllu að mati þeirra sem kvarta og er fólki oft mikið niðri fyrir er það hefur samband við lögreglu til að benda á slysahættuna sem fylgi háttalagi hjólreiðamannanna.

„Lögreglan biðlar til reiðhjólafólks, sem þetta á við um, að gera betur í umferðinni, þ.e. virða umferðarreglur og sýna öðrum vegfarendum bæði kurteisi og tillitssemi.“

Birtir lögregla með færslunni myndband frá Samgöngustofu sem sýnir þau atriði sem mestu máli skiptir þegar hjólað er á á gangstígum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert