Segir fullt tilefni til áfrýjunar

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og réttargæslumaður tveggja þeirra sem kærðu mann fyrir gróf kynferðisbrot er hann starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir fullt tilefni til að áfrýja málinu til Landsréttar.

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði manninn á mánudaginn af ákærum um að hafa beitt fjögur börn grófu kynferðislegu ofbeldi.

Embætti ríkissaksóknara tekur ákvörðun um hvort málinu verður áfrýjað til Landsréttar og þar er verið að skoða næstu skref.

„Oftast í þessum málum er dómurinn fjölskipaður. Þarna er einn dómari sem dæmir í málinu. Ég vil meina að miðað við umfang málsins hefði verið eðlilegast að hafa fjölskipaðan dóm,“ segir Sævar Þór.

Dómur í málinu féll á mánudaginn.
Dómur í málinu féll á mánudaginn. mbl.is

Ekki andleg geta til að kæra fyrr

Annar af tveimur umbjóðendum hans var metinn trúverðugur í dóminum. Þrátt fyrir það var stuðningsfulltrúinn sýknaður, meðal annars vegna samskipta fjölskyldu umbjóðandans um málið.

Úr dóminum: „Sem fyrr segir fær framburður brotaþola vissa stoð í framburði fjölskyldu hans, en eins og áður var rakið telur dómurinn ýmis atvik málsins þó til þess fallin að draga úr trúverðugleika framburðar þeirra.“

Sævar Þór segir ekkert óeðlilegt við það að fjölskylda tali um svona mál. Hann segir umbjóðanda sinn hafa þurft að vinna mikið í sjálfum sér og það hafi tekið langan tíma. Það sé ein af ástæðunum fyrir því að málið dróst á langinn. Stuðningsfulltrúinn var ákærður fyrir að brjóta gegn umbjóðanda hans á tímabilinu 2004 til 2010 þegar hann var 7 til 13 ára.

Sævar vill að málinu verði áfrýjað til Landsréttar.
Sævar vill að málinu verði áfrýjað til Landsréttar. mbl.is/Hjörtur

Sævar Þór tók við málinu í ágúst í fyrra en fyrir þann tíma hafði fjölskylda umbjóðanda hans leitað til annars lögmanns. Það sé önnur ástæða fyrir því að málið dróst á langinn.  

„Samkvæmt umbjóðanda mínum þá hefur hann, eins og gögn málsins sýna, verið að vinna í sjálfum sér og hefur ekki haft andlega getu til að standa í því að kæra hann. Það er það sem mér finnst þurfa að horfa til, vegna þess að það er ekki auðvelt fyrir fólk að takast á við afleiðingar kynferðisofbeldis og hvað þá að fara í málsókn,“ greinir hann frá.

„Ég er ekki tilbúinn til að samþykkja þann rökstuðning um að það dragi úr trúverðugleika aðstandenda að þeir höfðu haft langan tíma til að ræða sín á milli.“

Spurður hvernig umbjóðandi hans tók sýknudóminum á mánudaginn segir Sævar Þór að hann hafi tekið honum mjög illa.

Sönnunarbyrðin hjá fleiri en brotaþolum

Í dóminum kemur fram að ekki hafi tekist nægilega að sanna sekt mannsins enda þurfi að koma fram fullnaðarsönnun um hvert og eitt brot sem er ákært fyrir.

Sævar Þór kveðst lítið geta dæmt um framgöngu saksóknara í málinu. Hann segir það hafa verið mjög flókið og tekur fram að sönnunarbyrðin hafi ekki bara verið hjá brotaþolum heldur hafi ýmis önnur vitni verið kölluð til í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert