Gunnar berst líklega fyrir áramót

Gunnar Nelson verður að öllum líkindum klár í bardaga fyrir …
Gunnar Nelson verður að öllum líkindum klár í bardaga fyrir áramót. Meira en ár er liðið frá síðasta bardaga Gunnars.

Allt stefnir í að Gunnar Nelson geti barist seint í haust eða í byrjun vetrar. Æfingar hafa gengið mjög vel hjá bardagakappanum undanfarið en hann lenti í meiðslum í aðdraganda bardaga hans á móti Neil Magny. Gunnar þurfti að draga sig úr bardaganum sem átti að fara fram í lok maí fyrr á þessu ári.

Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars, segir að Gunnar sé farinn að æfa á fullu eftir að hafa þurft að gangast undir aðgerð á hné eftir að hafa rifið liðþófa í aðdraganda bardagans gegn Magny. „Gunnar vill vera hundrað prósent viss um að hann sé þannig góður að hann geti tekið átta eða tólf vikna æfingabúðir fyrir bardaga. Hann lítur mjög vel út og er byrjaður að æfa á fullu,“ segir Haraldur og bætir við að Sean Shelby hjá UFC hafi heyrt í sér í síðustu viku og hjá UFC bíði menn spenntir eftir því að Gunnar verði klár.

mbl.is

Bloggað um fréttina