Íslendingarnir enn í góðum séns

„Ég held að þau séu öll sammála um að þetta sé erfiðasti event og erfiðasta byrjun á crossfit-heimsleikunum sem nokkurn tímann hefur verið,“ segir auglýsingamaðurinn og umboðsmaðurinn Snorri Barón Jónsson um gærdaginn, fyrsta dag heimsleikanna og síðustu æfingu dagsins þar sem keppendur fóru í maraþon á róðrarvél.

„Fyrsti dagurinn á heimsleikunum snýst um að bjóða fólkið velkomið. Sjokkera og gera eitthvað sem er alveg crazy. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera,“ segir Snorri.

Snorri vinnur mikið með þeim Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur og Björgvin Karli Guðmundssyni. Sara er í tíunda sætinu og Björgvin í því áttunda.

Spurður út í ástandið á þeim eftir gærdaginn segir Snorri að strax eftir róðurinn hafi þau verið með rosalega krampa og fundið fyrir miklum stífleika. „Strax eftir æfinguna voru þau vart svipur hjá sjón, en svo fóru þau bara í kalt bað og sturtu, létu teygja á sér og eru í toppstandi núna. Þetta er fólk sem æfir 365 daga á ári til að þola svona brjálað álag og þetta var brjálað álag. Þau mættu rétt undirbúin.“

Íslendingarnir eiga góðan séns

Auk þeirra Söru og Björgvins eru þær Katrín Tanja Davíðsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir meðal tíu efstu. Katrín Tanja er sjötta og Annie Mist er í þriðja sætinu. Oddrún Eik Gylfadóttir er svo í 28. sæti. Snorri segir alla íslensku keppendurna í efstu tíu vera í góðum séns.

„Þau eru öll í góðum séns, það er bara staðan. Eftir morgundaginn verður komið betur í ljós hvernig þetta mun skiptast,“ segir Snorri. „Það er enginn búinn að sýna það strax að hann sé að fara að vinna þetta og góð frammistaða í tveimur þrautum í röð getur fleytt hvaða keppanda sem er ansi hátt upp stigatöfluna.“

Bendir hann til dæmis á Matt Fraser sem sigraði leikana örugglega í fyrra, en hann hafi ekki átt eins sannfærandi fyrsta dag á leikunum í ár eins og í fyrra þrátt fyrir að hann sé aftur efstur eftir fyrsta daginn.

„Í fyrra var Matt Fraser nokkurn veginn búinn að senda þau skilaboð að hann væri að fara að rústa þessu, en ekki núna. Og það sama er hjá konunum, þar eru flestar enn þá með góðan séns á að tryggja sér þetta með því að mæta sterkar til leiks á morgun,“ segir Snorri.

Hvíldardagur er á leikunum í dag en þeir keppa svo aftur á morgun, laugardag og sunnudag. Snorri segir að Íslendingarnir nýti daginn í dag í létta æfingu til að halda blóðinu á hreyfingu. Í kvöld að íslenskum tíma verði síðan opnunarviðburður leikanna þar sem að öllum líkindum verði tilkynnt um hvaða æfingar bíða keppenda á morgun.

Að sögn Snorra er mikið af íslendingum í Madison í Wisconsin þar sem leikarnir fara fram. „Það er tonn af Íslendingum hérna, það er mikið af fólki yfir höfuð, en mér finnst ég heyra íslensku og sjá íslenska fánann,“ segir Snorri en hann segir þetta algjöra paradís fyrir crossfit-unnendur, auk viðburða á keppninni sjálfri eru ýmsir hliðarviðburðir þar sem verið er að kynna æfingatæki, vörur og sýna báta svo dæmi sé tekið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert