Afslappaðar andarnefjur í höfninni

Andarnefjurnar við bryggjuna á Dalvík í morgun.
Andarnefjurnar við bryggjuna á Dalvík í morgun. Ljósmynd/Júlíus Júlíusson

„Við vonum að þær séu ekkert að flýta sér og verði hér enn á fiskideginum mikla næstu helgi,“ segir Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, um fimm andarnefjur sem eru nú í höfninni á Dalvík, öllum til mikils yndisauka. Júlíus segir að íbúar muni ekki eftir heimsókn slíkra dýra áður.

Hann segir að andarnefjurnar séu hinar rólegustu, syndi saman í lygnum sjónum við höfnina án nokkurs asa. Þær sáust fyrst í hafnarmynninu í gær en í morgun voru þær komnar nær. „Þær voru tignarlegar að sjá í morgunblíðunni og mikil friðsæld yfir þeim. Ferðamenn sem hér eru tóku andköf og áttu ekki til orð,“ segir Júlíus. „Við gátum þá sagt þeim að við hefðum nú ekki heldur séð andarnefjur hérna áður.“

Hópur andarnefja lék sér í Pollinum á Akureyri fyrir nokkrum dögum og segir Júlíus vissulega mögulegt að um sömu dýr sé að ræða.

„Það yrði auðvitað algjör bónus og mjög skemmtilegt ef þær yrðu hér enn á fiskideginum,“ segir Júlíus vongóður.

Hin vinsæla hátíð verður haldin í átjánda sinn næstu helgi. Að venju hefst hún á fiskisúpukvöldinu á föstudagskvöldinu eftir viku þar sem gestir geta gengið milli húsa í bænum og bragðað á ýmsum súputegundum. Á laugardeginum er svo slegið upp mikilli matarveislu þar sem gestum er boðið að bragða á margvíslegum fiskréttum. Í ár verður m.a. boðið upp á sushi sem er nýbreytni.

Stefnt er að því að gera fiskidaginn mikla vistvænni á sem flesta kanta og því er flokkun rusls og endurvinnsla að verða meiri á hátíðinni. Á hverju ári eru stigin framfaraskref í þessu efni, að sögn Júlíusar. Í ár er til dæmis unnið í samstarfi við Samál og Sæplast um endurvinnslu á einnota umbúðum sem til munu falla. 

Að venju verða svo stórtónleikar á laugardagskvöldið og munu fjölmargar stórstjörnur koma þar fram.

Í fyrra voru milli 25-30 þúsund gestir á hátíðinni og er gert ráð fyrir svipuðum fjölda í ár. 

Skrítið veður

„Veðrið hefur verið skrítið, sérstakt og öðruvísi í sumar en við eigum að venjast,“ segir Júlíus. Óvenjumikið hafi rignt en á milli hafi komið fínasta veður. Hann segist alls ekki liggja yfir langtímaspánum núna. Annar í hátíðarnefndinni hafi það hlutverk. „Þetta er orðin hefð, einn sér um að fylgjast með spánni og hinir spyrja helst ekki út í hana og treysta því að það verði gott veður eins og það er vant að vera.“

Hér getur þú fræðst um andarnefjur og hér getur þú skoðað dagskrá fiskidagsins mikla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert