Fíkniefnaneyslan vaxandi vandamál

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir þróunina ógnvænlega.
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir þróunina ógnvænlega. Graf/mbl.is

47 slösuðust í umferðarslysum vegna fíkniefnaaksturs á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Miðað við sama tímabil í fyrra nemur fjölgun slysa af þessum völdum 124% milli ára, en á síðasta ári slasaðist 21 á sama tímabili. Fjöldi þeirra sem slösuðust alvarlega á fyrstu fjórum mánuðum ársins tvöfaldaðist, úr fjórum í átta.

Miðað við spár mun tala alvarlega slasaðra eða látinna verða hátt í 20 yfir árið ef fram fer sem horfir. Af heildarfjölda alvarlega slasaðra á fyrstu fjórum mánuðum ársins eru 14% vegna fíkniefnaaksturs og 9% vegna ölvunaraksturs. Tæplega fjórðungur þeirra sem slösuðust alvarlega slösuðust af völdum aksturs undir áhrifum vímuefna.

Sprenging í fjölda slysa

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að það sem af er ári hafi 1.300 verið grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir þróunina ógnvænlega en að lögreglan notist helst við þann mælikvarða við mat á umfangi aksturs undir áhrifum vímuefna, hversu margir slasist í slysum þar sem orsakavaldurinn er undir áhrifum vímuefna.

Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að til ófremdarástands horfi hvað fíkniefnaakstur varðar. „Það sem okkur finnst sérstaklega athyglisvert er þetta mikla ris frá árinu 2016 sem er eiginlega fordæmalaust og hálfgerð sprenging. Talan fer úr átján, sem var hæsti punktur þá miðað við skráningu fyrri ára og rýkur svo upp. Við höfum aldrei séð það verra og þetta segir okkur það, sem fram hefur komið í öðru samhengi, að fíkniefnaneysla er vaxandi vandamál,“ segir hún.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert