Hlaupið vex hraðar en fyrir þremur árum

Frá Skaftárhlaupi 2015. Fyrstu mælingar benda til þess að rennslisaukning …
Frá Skaftárhlaupi 2015. Fyrstu mælingar benda til þess að rennslisaukning Skaftárhlaups nú sé meiri en í stóru jökulhlaupi úr sama katli árið 2015. mbl.is/RAX

Fyrstu gögn frá Veðurstofu Íslands benda til þess að rennslisaukning Skaftárhlaups sé meiri en í stóru jökulhlaupi úr sama katli árið 2015. Hlaupið náði að brjótast undan jöklinum skömmu fyrir hádegi í dag, töluvert fyrr en mælingar gerðu ráð fyrir.

Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að segja til um hversu stórt hlaupið verður en samanborið við hlaupið árið 2015 vex hlaupið sem hófst í dag mun hraðar. „Það getur þýtt það að hlaupið ferðist hraðar niður farveginn en það er ómögulegt að segja hversu stórt hlaupið verður,“ segir Hulda Rós.

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að rennsli við Sveinstind hafði náð 400 m3/s um klukkan hálffjögur. Búist er við að aukins rennslis gæti við Hólaskjól nú síðdegis og að hámarki rennslis verði náð þar seint í nótt eða í fyrramálið. Lögreglan á Suðurlandi vinnur nú að lokun vega á svæðinu.

GPS-mælir í Eystri-Skaftárkatli hefur lækkað um 20 metra á einum og hálfum sólarhring síðan fyrst varð vart við lækkun. Í stóra hlaupinu úr sama katli í október 2015 seig mælistöðin alls um 80 metra.

Ísflikki geta brotnað úr jökulsporðinum

Hlaupið brýst nú fram undan Skaftárjökli og munu umbrot þar aukast á næstu klukkutímum. Eindregið er varað við því að vera á ferð á þessum slóðum vegna losunar eitraðra gastegunda úr hlaupvatninu, auk þess sem stór ísflikki geta brotnað úr jökulsporðinum og ofan hans.

Líklegt er að rennslið nái hámarki við Ása og Kirkjubæjarklaustur á morgun, laugardag. Rennslishámark mun standa yfir í nokkrar klukkustundir en eftir það mun draga hægt úr hlaupinu. Ekki er vitað með vissu hve lengi hlaupið mun standa en líklegt er að því verði að mestu lokið innan einnar viku, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Óvissustigi almannavarna hefur verið lýst yfir vegna hlaupsins og munu sérfræðingar Veðurstofunnar fylgjast áfram með stöðu og þróun mála og verða fleiri sérfræðingar á vakt en vanalega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert