Íshellan fallið um átta metra

Frá hlaupinu í Skaftá árið 2015.
Frá hlaupinu í Skaftá árið 2015. mbl.is/RAX

GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar hefur fallið um átta metra, sem þýðir að lónið sem er undir ísnum er farið að renna undan katlinum.

„Við vitum ekki nákvæmlega hvenær það kemur fram en miðað við það sem við þekkjum frá öðrum hlaupum er hugsanlegt að það komi fram seint í kvöld eða næstu nótt,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri í náttúruvárvöktun hjá Veðurstofu Íslands.

Samráðsfundur verður haldinn klukkan 14 í dag vegna stöðunnar. Þar mun Veðurstofan ræða við lögregluna, almannavarnir og fleiri til að fara yfir stöðuna og endurmeta hana.

Skaftárhlaup geta verið mikil.
Skaftárhlaup geta verið mikil. mbl.is/RAX

Hafa áhyggjur af gasmengun

Rafleiðni við Sveinstind hefur einnig hækkað lítillega. Veðurstofan hvetur ferðamenn til að halda sig fjarri þessum slóðum.

„Við höfum smá áhyggjur, ekki bara af vatninu, heldur líka af þessari gasmengun,“ segir Kristín og nefnir að búist sé við stilltu veðri á svæðinu og því mögulegt að pollar af gasi myndist yfir ánni, mest þó við upptök hennar við Skaftárjökul.

„Það hefur áður gerst að það hafi liðið yfir fólk og það orðið mjög veikt af gasmengun í tengslum við svona hlaup. Það er algjör óþarfi að fólk lendi í því,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert