Katrín Tanja og Björgvin Karl færast ofar

Katrín Tanja (til hægri) dró Rescue Randy í mark og …
Katrín Tanja (til hægri) dró Rescue Randy í mark og endaði í þriðja sæti í greininni. Hún er í fimmta sæti í heildarkeppninni. Skjáskot/Facebook

Björgvin Karl Guðmundsson er í sjöunda sæti eftir fyrri keppnisgrein dagsins á heimsleikunum í crossfit sem héldu áfram í Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum dag. Björgvin hafnaði í sjötta sæti í fyrri grein dagsins, sem ber yfirskriftina Vígvöllurinn (e. The Battleground) og er það orð að sönnu.

Katrín Tanja Davíðsdóttir hafnaði í 3. sæti í greininni og Annie Mist Þórisdóttir í 8. sæti. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Oddrún Eik Gylfadóttir náðu ekki að klára þrautina.

Björgvin Karl er í sjöunda sæti eftir fimm greinar á …
Björgvin Karl er í sjöunda sæti eftir fimm greinar á heimsleikunum crossfit. Ljósmynd/Crossfit Games

Í greininni sem minnir á heræfingu þurftu keppendur að draga 75 kílóa dúkku, „Rescue Randy“, yfir íþróttavöll og klifra upp tvo kaðla sem eru misþykkir. Að því loknu tók við 400 metra hlaup hjá konunum og 650 metra hlaup hjá körlunum að þrautabraut þar sem keppendur fóru í gegnum þrautabraut með átta hindrunum. Keppendur fóru svo sömu leið til baka, það er: Hlaup að leikvanginum, kaðlaklifur og að lokum þurftu þeir að draga dúkkuna til baka.

Keppendur klæddust þyngingarvestum, karlarnir 9 kílóa vestum og konurnar 6 kílóa vestum, og þurftu karlarnir að ljúka greininni á ellefu mínútum en konurnar höfðu 12 mínútur.

Eftir fimm keppnisgreinar stendur Annie Mist best að vígi meðal íslensku keppendanna í 3. sæti. Katrín Tanja er í 5. sæti, Ragnheiður Sara í 14. sæti og Oddrún Eik í 26. sæti.

Katrín Tanja fór úr sjötta sæti upp í það fimmta …
Katrín Tanja fór úr sjötta sæti upp í það fimmta eftir fimmtu keppnisgreinina á heimsleikunum í crossfit. Ljósmynd/Facebook

Árangur nýliðans Laura Horvath hefur komið skemmtilega á óvart en hún trónir á toppnum eftir fyrstu fimm greinarnar en hún sigraði á vígvellinum í dag. Á eftir henni kemur ríkjandi hraustasta kona heim, Ástralinn Tia-Clair Toomey.

Önnur keppnisgrein dagsins hefst klukkan 20 að íslenskum tíma en ekki hefur verið gefið upp hvað felst í henni. Leyndarhyggja heimsleikanna heldur því áfram. 

Þriðja og líklega síðasta keppnisgrein dagsins hefst um miðnætti að íslenskum tíma og nefnist greinin Fibonacci og samanstendur af handstöðupressum, réttstöðulyftu með ketilbjöllum og framstigi með lóðum. Lokagreinin á heimsleikunum í fyrra var með sama sniði og því gefst keppendum kostur á að gera betur en í fyrra.

Annie Mist Þórisdóttir er efst íslensku keppendanna eftir fimm greinar, …
Annie Mist Þórisdóttir er efst íslensku keppendanna eftir fimm greinar, í þriðja sæti. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert