Páll Óskar keyrir á „kött“

Páll Óskar rétt eftir að hann keyrði á „köttinn
Páll Óskar rétt eftir að hann keyrði á „köttinn". Honum var að sjálfsögðu brugðið. Mynd/Skjáskot úr myndbandinu

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur birt á Facebook-síðu sinni myndband í forvarnarskyni af Páli Óskari Hjálmtýssyni tónlistarmanni að keyra bíl á meðan hann skoðar símann sinn.

Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg vonast til að myndbandið veki athygli núna þegar verslunarmannahelgin er að hefjast þegar margir eru á ferðinni.

Myndbandið er hluti af verkefni Landsbjargar sem nefnist Vertu snjall undir stýri þar sem fólk er hvatt til að leggja frá sér símann og önnur tæki á meðan það keyrir bíl. Mörg fyrirtæki hafa tekið þátt í herferðinni með Landsbjörg, þar á meðal Strætó og hópferðafyrirtæki.

Svali, Páll Óskar og Sólrún taka þátt í herferð Landsbjargar.
Svali, Páll Óskar og Sólrún taka þátt í herferð Landsbjargar. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur mælst mjög vel fyrir. Það eru allir sammála því að það þurfi að taka á þessu. Við mannfólkið erum svolítið föst í viðjum vanans. Við borðum alltaf hangikjöt á jóladag, við borðum alltaf páskaegg og við grípum alltaf ósjálfrátt í símann. Þetta á eftir að taka einhver ár að höfða til fólks og breyta þessum vana sem er kominn,“ segir Jónas um verkefnið og bendir á að hann þurfi ekki annað en að stoppa á umferðarljósum til að sjá fólk í farsímanum.

Frá tökum á myndbandinu með Svala.
Frá tökum á myndbandinu með Svala. Ljósmynd/Aðsend

Auk Páls Óskars voru þau Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali, og Sólrún Diego fengin til að taka þátt í verkefninu. Þau voru látin aka eftir akstursbraut í Hafnarfirði þar sem ýmsar hindranir voru settar upp án þess að þau vissu af þeim fyrir fram. Í tilfelli Páls Óskars var „köttur“ á veginum sem hann ók að sjálfsögðu á vegna þess að hann sá hann ekki í tæka tíð.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg.
Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg. mbl.is/RAX
mbl.is