Skaftárhlaup er hafið

Frá Skaftárhlaupi 2015.
Frá Skaftárhlaupi 2015.

Hlaupið í Skaftá er hafið. Þetta staðfestir Veðurstofa Íslands við mbl.is. 

Snorri Zóphóníasson, sérfræðingur í vatnamælingum hjá Veðurstofu Íslands, segir að hlaupið hafi vaxið mjög hratt á skömmum tíma. 

Hann bætir við að það muni líða átta til tíu klukkutímar þangað til hlaupsins fari að gæta í efstu byggðum.

Veðurstofa Íslands greindi í gær frá því, að fyrir hlaupið 2015 höfðu liðið rúm fimm ár frá síðasta hlaupi þar á undan en nú séu liðin tæp þrjú ár frá síðasta hlaupi.

„Það er heppilegt að því leitinu til að þá má vænta minna hlaups en eftir jafn langt hlé og fyrir hlaupið 2015. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunar Háskólans sýna einnig að nokkru minna vatn er í lóninu nú en var í upphafi hlaups 2015. Því er búist við því að rennsli í hlaupinu sem nú er hafið verði minna en í hlaupinu 2015 en það er þó ekki fullvíst vegna þess að hugsanlegt er að hlaup nú brjótist hraðar fram,“ kom fram í grein á vef Veðurstofu Íslands í gær.  

Möguleg vá

Það er mikilvægt að íbúar og allir þeir sem leið eiga um flóðasvæðið séu meðvitaðir um þær aðstæður sem upp geta komið og að ferðamenn séu upplýstir um mögulega náttúruvá: 

  • Næstu daga munu flóðaðstæður ríkja við bakka Skaftár. Mögulegt er að Skaftá flæði yfir vegi sem liggja nærri árbökkum.
  • Dæmi eru um að hlaup frá katlinum hafi komið að hluta til undan Síðujökli, sem mundi þá valda hlaupi í Hverfisfljóti og þá koma fram við brúna á þjóðvegi 1. Fylgst er vel með Hverfisfljóti þótt ekki sé talið líklegt að það gerist.
  • Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.
  • Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum, sem og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls þar sem hlaupvatn gæti brotið sér leið upp á yfirborðið.

Starfsmenn Veðurstofu fylgjast náið með þróuninni næstu sólarhringa.

mbl.is