Björgvin: „Ég ætla að enda á palli“

Björgvin Karl Guðmundsson segir það hrikalega svekkjandi að hafa ekki …
Björgvin Karl Guðmundsson segir það hrikalega svekkjandi að hafa ekki komist í aðra umferð í „Clean & Jerk Speed ladder“-þrautinni í gær. Ljós­mynd/​​Berg­lind Sig­munds­dótt­ir

Björgvin Karl Guðmundsson segir það hrikalega svekkjandi að hafa ekki komist í aðra umferð í „Clean & Jerk Speed ladder“-þrautinni í gær. „Ég vanmat þrautina og hefði átt að negla betur á hana því ég lenti í 21. sæti og náði þar af leiðandi ekki að komast áfram,“ segir Björgvin Karl en aðeins einu sæti munaði að hann hefði komist í næstu umferð. 

„Ég var svo grátlega nálægt því að komast áfram þar og ef það hefði gerst þá hefði ég klárlega náð talsvert hærra á stigatöfluna,“ sagði Björgvin við mbl.is áður en hann lagði af stað í fyrstu þraut dagsins í morgun. Björgvin varð tíundi í sund- og hlaupaþrautinni í morgun og hélt sínu fimmta sæti.

„Það er heilmikið eftir af keppninni og að vera í nágrenni við verðlaunapallinn á þessum tímapunkti er nákvæmlega það sem ég var fyrir fram búinn að plana. Ég ætla að enda á palli í ár og enn sem komið er þá á ég mjög góðan möguleika á því,“ segir Björgvin.

Björgvin í annarri þraut gærdagsins. Þar endaði hann í 21. …
Björgvin í annarri þraut gærdagsins. Þar endaði hann í 21. sæti og munaði því aðeins einu sæti á að hann kæmist áfram í næstu umferð. Segir hann það mikil vonbrigði að hafa ekki endað sæti ofar. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

Björgvin byrjaði leikana mjög vel og náði góðum árangri í götuhjólreiðunum. „Hjólaæfingarnar sem ég er búinn að vera að gera voru sannarlega að skila sér. Það að eiga sterka byrjun á svona móti er mikilvægt fyrir hausinn á manni.“

Að sögn Björgvins er hann í góðu standi í líkamanum núna þegar mótið er hálfnað. „Ég er smá aumur hér og þar eins og allir hinir keppendurnir en heilt yfir líður mér nákvæmlega eins og mér á að líða þegar leikarnir eru hálfnaðir og ég er algjörlega klár í það sem fram undan er,“ segir hann.

Strax á fyrsta degi leikanna fengu keppendur mjög erfitt verkefni, að róa heilt maraþon. Hvernig var það? 

„Það er sennilega það leiðinlegasta sem ég hef gert á ævinni. Svo er þetta bara að öllu leyti ógeðsleg æfing. Ég var kominn með krampa víða um líkamann þegar 20 kílómetrar voru búnir, og þegar þangað var komið þá var lítil huggun í því að vera ekki nema hálfnaður,“ segir Björgvin en þá biðu hans 21 kílómetri til viðbótar.

„Þessi æfing reyndi svakalega á og ég hef aldrei á ævinni verið jafnþreyttur og liðið jafnilla eins og eftir hana. Eftir að hafa farið í heita sturtu og fengið mér smá að borða þá var ég allur annar og svo náði ég að hvíla mig vel á fimmtudaginn til að vera 100 prósent fyrir gærdaginn,“ segir Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert