Hafa áhyggjur af þekkingarleysi Heiðu Bjargar

Segja stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn byggingarréttargjaldið valda „verulegum töfum á byggingu ...
Segja stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn byggingarréttargjaldið valda „verulegum töfum á byggingu leiguíbúða í Reykjavík“. mbl.is/RAX

Stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur og formaður VR, Ragnar Þór Ingólfsson, lýsa yfir áhyggjum af þekkingarleysi formanns velferðarráðs Reykjavíkur og varaformanns Samfylkingarinnar, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, á húsnæðismarkaðnum í Reykjavík.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem flokkarnir fjórir, Flokkur fólksins, Miðflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkur, ásamt formanni VR, sendu frá sér nú síðdegis. Segja þeir tilefnið vera ummæli Heiðu Bjargar í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun.

Þar hafi Heiða Björg sagt 1.000 íbúðir vera í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga. „Þetta er rangt. Hið rétta er að 256 íbúðir, svo vitað sé, eru í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga í Reykjavík og hefur borgin gefið út 551 byggingarleyfi til handa slíkum leigufélögum, sem er víðs fjarri þeim 1.000 íbúðum sem formaður velferðarráðs, Heiða Björg Hilmisdóttir, heldur fram að séu í byggingu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá hafi formaður velferðarráðs einnig hafnað þeirri staðreynd að byggingarréttargjald hafi áhrif á leiguverð í Reykjavík. Staðreyndin sé sú að byggingarréttargjaldið, sem er 45.000 kr. á hvern fermetra, valdi „verulegum töfum á byggingu leiguíbúða í Reykjavík“. Gjaldið leggist á leiguverð sem auki greiðslubyrði leigjenda til muna og geti gjaldið numið hundruðum þúsunda árlega fyrir hverja íbúð.

„Þessi ummæli formanns velferðarráðs undirstrika skilningsleysið á þeim brýna húsnæðisvanda sem er í Reykjavík. Stjórnarandstöðuflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur, hafa nú þegar lagt fram tillögur til lausnar vandans en þær tillögur hafa því miður ekki náð fram að ganga. Stjórnarandstöðuflokkarnir og formaður VR skora á meirihlutaflokkana í borginni að bregðast við vandanum með því að taka undir tillögur stjórnarandstöðuflokkanna í húsnæðismálum.“ 

mbl.is