Rennsli Skaftár í hámarki við Sveinstind

Rennslið í Skaftá hefur náð hámarki við Sveinstind.
Rennslið í Skaftá hefur náð hámarki við Sveinstind. Ljósmynd/Auður Guðbjörnsdóttir

Rennsli Skaftár við Sveinstind mældist 1.291 rúmmetri á sekúndu í morgunsárið og er komið í hámark að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Engin brennisteinsmengun hefur mælst við Sveinstind. Vatnshæð við Eldvatn í Eystri-Ásum er nú um 400 rúmmetrar á sekúndu og hefur vatnshæðin aukist úr 210 sentimetrum í 380 sentimetra.

Íshellan við Eystri-Skaftárketil hefur sigið um 65 metra. Íshellan seig mest 80 metra í hlaupinu árið 2015. Hlaupið fór hratt af stað þegar það hófst um hádegi í gær en mælingar gefa til kynna að hlaupið nú verði minna en hlaupið fyrir þremur árum þegar hámarksrennsli mældist 3.000 rúmmetrar á sekúndu.

Lögregla hefur vaktað svæðið í nótt og lokað hefur verið fyrir umferð við Skaftártungu og inn á Fjallabak. Óvissustig almannavarna er enn í gildi vegna jökulhlaupsins og talið er að rennslið nái hámarki við Ása og Kirkjubæjarklaustur í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni mun rennslishámark standa yfir í nokkrar klukkustundir en eftir það mun draga hægt úr hlaupinu. Ekki er vitað með vissu hve lengi hlaupið mun standa en líklegt er að því verði að mestu lokið innan einnar viku.

Áætlað er að Landhelgisgæslan fljúgi yfir svæðið þar sem áhrifa hlaupsins gætir ásamt vísindamönnum frá Veðurstofunni. Stefnt er að því að flogið verði síðdegis í dag. 

Sam­ráðsfund­ur verður hald­inn klukk­an 14 í dag vegna stöðu hlaupsins. Þar mun Veður­stof­an ræða við lög­regl­una, al­manna­varn­ir og fleiri til að fara yfir stöðuna og end­ur­meta hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert