Minni sókn Íslendinga að Laugaveginum

Umhverfið á svæðinu er undurfagurt.
Umhverfið á svæðinu er undurfagurt. Ljósmynd/Jóhann Kári Ívarsson

Laugavegurinn, ein vinsælasta gönguleið landsins, er vel sóttur af ferðamönnum. Skálaverðir í skálum við gönguleiðina segja aðsóknina þó töluvert minni í ár en undanfarin ár og þá sérstaklega meðal íslensks göngufólks.

„Sumarið hefur ekki verið sérstakt veðurfarslega séð og svo setti HM strik í reikninginn. Það hefur verið mjög lítið um Íslendinga,“ segir Anders Rafn Sigþórsson, skálavörður Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri.

„Það er líka bara búið að vera svoleiðis síðustu ár að það hefur bara verið einn og einn hópur af Íslendingum. 95% göngufólks hafa verið túristar. Íslendingarnir virðast fara eitthvað annað að ganga, því þetta er orðið eins og Gullfoss og Geysir.“

Laugavegsgönguleiðin er um margt fræg fyrir einstakt landslag.
Laugavegsgönguleiðin er um margt fræg fyrir einstakt landslag. Ljósmynd/Jóhann Kári Ívarsson

Þarf að skipuleggja með árs fyrirvara

Anders segir að þó svo að langt sé liðið á sumarið sé nóg eftir af göngutímabilinu. „Við lokum hér í Hrafntinnuskeri 18. september, þannig að það er í raun besti tíminn eftir.“ Ferðamenn byrja snemma að bóka skálagistingar á gönguleiðinni og því þarf að skipuleggja sig vel fram í tímann ef ætlunin er að freista þess að ná skálaplássi á öllum stöðum leiðarinnar.

Höskuldsskáli er minnstur af skálunum og því með tiltölulega fá gistipláss svo að hann er gjarnan uppbókaður yfir háannatímann. „Skálinn er eiginlega alltaf fullur. Frá júní og fram í september er hann eiginlega bókaður öll kvöld og búið að bóka hann frá október árið áður. Þess vegna er mælt með því að fólk skipuleggi sig ár fram í tímann,“ segir Anders.

Flestir gefa sér góðan tíma til að ganga Laugaveginn og algengt er að gangan taki um fjóra daga með gistingu. „Það er klassíska leiðin að byrja í Landmannalaugum, koma svo hingað í Hrafntinnusker og gista hér. Ganga svo í Álftavatn, gista þar og þaðan í Emstrur og enda svo í Þórsmörk,“ útskýrir Anders. 

Anders Rafn Sigþórsson hefur unnið sem skálavörður í Hrafntinnuskeri í …
Anders Rafn Sigþórsson hefur unnið sem skálavörður í Hrafntinnuskeri í nokkur ár. Hann er mikill göngumaður og er hér í grunnbúðum Everest. Ljósmynd/Aðsend

Túristarnir halda að þeir séu að deyja

Anders segir að vinnan sé skemmtileg. „Við erum tveir skálaverðir hér í Hrafntinnuskeri. Núna hef ég unnið hér í nokkur ár og það eru að koma leiðsöguhópar með bílstjóra til þess að keyra farangurinn á hverjum degi og maður er farinn að þekkja þetta fólk. Þetta er eins og að fá vini í heimsókn á hverjum degi.“

Það var snjókoma á svæðinu í júní en Anders segir að þau kippi sér lítið upp við vont veður.„Það snjóaði reyndar óvenjulega oft núna í júní, en það er alls ekkert óvenjulegt að það snjói nokkrum sinnum yfir sumarið. Við höfum alveg fengið snjóbyl í miðjum júní og við kippum okkur ekki upp við það. Það er aðallega það að túristarnir halda að þeir séu að deyja, en það er nú bara alveg tóm vitleysa,“ segir Anders og hlær.

Ljósmynd/Jóhann Kári Ívarsson

Best að forðast bómullina

Umgengnin á svæðinu hefur líka verið góð að sögn Anders. „Það eru langflestir mjög samviskusamir og skilja ekkert rusl eftir og taka allt upp eftir sig. En svo er alltaf þessi eini og eini svarti sauður sem gerir það ekki. Þegar þetta er komið upp í þennan fjölda þá fjölgar þeim aðilum auðvitað, en þeir reyna þá frekar að fela rusl hérna í skálanum en ekki á gönguleiðinni sjálfri, sem er skárra, þó svo að maður rekist alveg á eitt og eitt pappírssnifsi á leiðinni,“ segir Anders.

Þegar lagt er upp í langa göngu líkt og Laugaveginn þarf að hafa ýmislegt í huga. Þar er góður útbúnaður mikilvægur að sögn Anders. „Það þarf fyrst og fremst að vera klæddur í allt mögulegt veður, þá ull og regnfatnað. Og alls ekki í bómull því hún verður svo þung og köld þegar hún blotnar. Svo þarf að reyna að pakka eins létt og maður getur, það munar um að bera 15 eða 20 kíló.“

Höskuldsskáli í Hrafntinnuskeri. Töluvert hefur snjóað á svæðinu í sumar.
Höskuldsskáli í Hrafntinnuskeri. Töluvert hefur snjóað á svæðinu í sumar. Ljósmynd/Jóhann Kári Ívarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert