Ný brú yfir Eldvatn í pípunum

Brúin yfir Eldvatn þykir ótraust. Hún hefur verið lokuð síðan …
Brúin yfir Eldvatn þykir ótraust. Hún hefur verið lokuð síðan á fimmtudag vegna Skaftárhlaups. mbl.is/Jónas Erlendsson

Brúin yfir Eldvatn við Eystri-Ása í Skaftártungu hefur verið í sviðsljósinu í Skaftárhlaupinu sem staðið hefur yfir síðan á fimmtudag, þar sem óvíst þykir hvort hún standi af sér hlaupið.

Brúin er 64 metra löng, einbreið stálbitabrú með timburgólfi en hún var reist árið 1967 og leysti þá af hólmi aðra brú sem hafði aðeins staðið í rúmt ár þar til hún féll í Skaftárhlaupi. Stöplar brúarinnar standa á hraunlagi sem er um 6-8 metrar að þykkt en undir því eru setlög, drulla.

Eldvatnsbrúin laskaðist í Skaftárhlaupi 2015 þegar gróf undan eystri stöpli hennar og var hún lokuð um hríð áður en opnað var fyrir umferð að nýju, en þó aðeins fyrir ökutæki sem eru léttari en fimm tonn. Þá má aðeins einn bíll vera á brúnni í einu. Henni var lokað á fimmtudag af ótta við að enn græfi undan stöplum hennar í hlaupinu sem nú gengur yfir.

Ný brú væntanleg næsta sumar

Til stendur að smíða nýja brú yfir ána. Guðmundur Valur Guðmundsson, forstöðumaður hönnunardeildar Vegagerðarinnar, segir að farið hafi verið í útboð í fyrra og í annarri tilraun fengist ásættanlegt tilboð frá Munck á Íslandi. Smíði stendur yfir en stálverktakinn kemur frá Póllandi.

Verksamningurinn gerir ráð fyrir að brúin verði tilbúin næsta sumar. Í stað þess að reisa brúna á sama stað og þá gömlu var nýtt brúarstæði valið nokkrum tugum metra neðar í ánni. „Við fundum stað þar sem kanturinn hefur verið óbreyttur frá árinu 1950 og eru ekki setlög undir hrauninu,“ segir Guðmundur og bætir við að brúin verði mikil bót fyrir þá sem fara þar um einkum bændur í Skaftártungu og þá sem eiga leið inn að Landmannalaugum.

Brúin var reist árið 1967.
Brúin var reist árið 1967. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það hefur valdið verulegum óþægindum fyrir bændur að geta ekki komið með aðföng þessa leið,“ segir hann. Þess í stað þurfi menn að fara aðra leið inn að Skaftártungum, sem er um 20-25 kílómetrum lengri. Nýja brúin verður tvíbreið og mun þola hefðbundna umferð.

Í þessu myndbandi sem Jónas Erlendsson, fréttaritari Morgunblaðsins, deilir á Facebook sést Eldvatnsbrúin auk þess sem myndavélinni er beint niður eftir ánni, en um hálfa leið inn í myndbandið sést nýja brúarstæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina