Góður árangur þrátt fyrir að vera yngstur

Brynjar Ari Magnússon á heimsleikunum. Hann endaði í sjötta sæti …
Brynjar Ari Magnússon á heimsleikunum. Hann endaði í sjötta sæti í flokknum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Brynjar Ari Magnússon náði frábærum árangri í flokki 14-15 ára drengja á heimsleikunum í crossfit þrátt fyrir að vera árinu yngri en allir í flokknum en hann var eini fjórtán ára keppandinn sem komst á mótið. Brynjar endaði í sjötta sætinu en þetta voru hans fyrstu heimsleikar. Hann ætlar að sigra í flokknum á næsta ári.

Brynjar Ari er á leiðinni í níunda bekk og byrjaði hann í crossfit fyrir rétt tæpum þremur árum, þá aðeins ellefu ára.

„Ég varð mjög hrifinn af þessu strax, en pabbi dró mig í crossfit,“ segir Brynjar sem var áður í fimleikum og klifri. „Ég fór að horfa á myndirnar sem crossfit hefur verið að gera og fannst þetta alveg geggjað,“ segir Brynjar en hann er þar að auki mikill Matt Fraser-aðdáandi.

Hann fór fljótlega að skara fram úr í unglingaflokki, meðal annars af því að hann hafði góðan grunn úr fimleikunum. Seint á síðasta ári skráði hann sig í forkeppni heimsleikanna sem fóru fram á netinu fyrir unglingaflokkinn þar sem keppendur gerðu fimm VOD á fimm vikum.

Þar varð Brynjar í 19. sæti og komst hann í gegnum niðurskurðinn ásamt 199 öðrum. „Þá gerðum við fjögur VOD á fjórum dögum sem voru þyngri og erfiðari,“ segir Brynjar og tókst honum þar að tryggja sér eitt af tuttugu sætunum fyrir hans aldursflokk á leikunum.

„Venjulega æfi ég svona tvo til þrjá tíma á daga en þegar ég fór að æfa fyrir leikana æfði ég tvisvar á dag í ég veit ekki hvað langan tíma. Ég æfði mjög mikið og hafði ekki tíma fyrir neitt annað,“ segir Brynjar.

Brynjar Ari Magnússon á góðri stundu í Madison.
Brynjar Ari Magnússon á góðri stundu í Madison. Ljósmynd/Aðsend

Spurður út í leikana segir Brynjar að hann hafi verið frekar stressaður fyrsta daginn og það hafi haft áhrif á frammistöðuna. Í fyrstu æfingunni var „double-under“ sipp og „clean“-stigi þar sem Brynjar endaði í níunda sæti. Þar á eftir var handstöðuganga þar sem hann hafnaði í tólfta sætinu og svo loks þrautabraut og hlaup þar sem hann varð níundi.

„Ég var mjög stressaður á fyrsta deginum og það skemmdi aðeins fyrir,“ segir Brynjar en bætir við að hann hafi átt miklu betri dag á degi tvö. Í fyrstu keppni dagsins náði hann þriðja sætinu þar sem keppendur áttu að hlaupa, klifra upp kaðal og bera klafa (e. yoke). „Ég var mjög ánægður með þann árangur og var þá í kringum ellefta sætið,“ segir Brynjar.

Í annarri æfingunni á degi tvö gekk ekki eins vel, en þar misreiknaði Brynjar sig á tíma og náði ekki að taka þriðju lyftuna í axlapressunni. Keppendur byrja með stöngina framan á öxlunum og eiga að koma henni fyrir ofan höfuð. „Ég hafði þrjár mínútur til að gera þrjár tilraunir og ég klúðraði þessu aðeins og hafði bara tíma fyrir tvær. Ég hafði ekki tíma fyrir síðustu tilraunina,“ segir Brynjar sem hann segir svekkjandi þar sem hann hefði getað gert mun betur og endaði hann í 18. sæti í æfingunni.

Keppendur fengu aðeins einnar mínútu hvíld eftir aðra æfinguna áður en þriðja og síðasta æfingin hófst en þar áttu keppendur að fara tvær umferðir af 800 metra róðri, 600 metra „SkiErg“ og 40 hnébeygjum. Þar endaði Brynjar í fjórða sætinu sem hann var sáttur við.

Brynjar lenti í fjórða sætinu í fyrstu æfingu þriðja dagsins sem var á laugardaginn hjá hans aldursflokki þar sem hvíldardagurinn hjá honum var á föstudeginum en ekki fimmtudeginum líkt og hjá karla- og kvennaflokknum. Þar áttu keppendur að fara fimm umferðir af „Muscle-ups“, hnébeygju og box-hoppum og náði Brynjar fjórða sætinu. Síðar um daginn var 500 metra sund og endaði Brynjar í 12. sætinu sem hann segir hvorki súrt né sætt þar sem sé bara meðalgóður í sundinu.

Á sunnudeginum var Brynjar síðan kominn í gang en þar náði hann sínum besta árangri í einstaka æfingu og varð í öðru sæti. Hann var innan við sekúndu frá fyrsta sætinu. Keppendur áttu þá að ljúka þremur umferðum af 20 „toe-to-bars“-magaæfingum og tíu sandpokalyftum. „Ég vissi alveg að ég gæti unnið þetta og ég gerði nokkur mistök, en ég er alveg ánægður með annað sætið.“

Brynjar var á leiðinni til Chicago frá Madison í Wisconsin í Bandaríkjunum þar sem leikarnir fóru fram þegar mbl.is tók hann tali. Með honum voru mamma hans og pabbi og tveir bræður. Hann setur markið á að sigra í flokknum sínum á næsta ári, þegar hann er á eldra ári flokksins og segist halda því opnu að fara alla leið í íþróttinni seinna meir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert