Blesi gönguköttur fær far í bakpokanum

Blesi fær hér far í bakpokanum hjá Trausta Daníelssyni, 9 …
Blesi fær hér far í bakpokanum hjá Trausta Daníelssyni, 9 ára. Ljósmynd/Elín Björk Jónasdóttir

Kötturinn Blesi vílar ekki fyrir sér að ganga á fjöll með fjölskyldu sinni. Þegar hann verður þreyttur á göngunni fær Blesi far með öðrum úr fjölskyldunni líkt og skemmtileg mynd sem birt var á facebooksíðunni Spottaði kött sýnir. Veðurfræðingurinn Elín Björk Jónasdóttir er eigandi Blesa.

„Okkur fannst mannúðlegra að prufa að taka Blesa með í staðinn fyrir að skilja hann eftir og láta einhvern koma og fóðra hann af því að hann er svo félagslyndur,“ segir Elín Björk í samtali við mbl.is. Blesi, sem er rúmlega eins árs fress, hefur nýtt sumarið í ferðalög með fjölskyldunni um Ísland í sumar. „Við sjáum ekkert eftir því,“ bætir hún við.

Elín Björk segir Blesa vera góðan í bílnum. „Hann hatar hins vegar kattabúrið, þannig að hann liggur bara í aftursætinu í bílnum á milli drengjanna tveggja. Þar er hann bara í ólinni og þeir passa bara að hann sé ekkert að flakka.“

Ljósmynd/Elín Björk Jónasdóttir

Duglegur ef það eru göngustígar

Blesi hóf ævina á því að keyra frá Patreksfirði í júlí fyrra í fanginu á barnabarni eiganda læðunnar sem átti Blesa. Fjölskyldan reyndi svo fyrst að fara með hann í gönguferð um jólin í kringum Rauðavatn. „Það gekk ekkert rosalega vel,“ segir Elín Björk. „Við vorum með stuttan taum á honum og hann var skíthræddur við allt og alla. Hann virðist hins vegar hafa orðið hugaðri eftir því sem leið á, þannig að þetta gekk alveg ljómandi vel í sumar.“

Elín Björk segir fjölskylduna telja sömu reglur gilda um ketti á ferðalögum og gildi um hunda. „Þannig að hann fékk beisli og ól,“ segir hún. Og Blesi hefur verið til í að fylgja fjölskyldunni á gönguferðum þeirra. „Stundum er hann ekkert á því að byrja, en ef hann fær smá tækifæri til að skoða umhverfið og jafna sig er hann tilbúinn að fara af stað. Hann er líka rosa duglegur ef það eru göngustígar og virðist vita að hann eigi að fylgja þeim.“

Blesi í hlíðum Spákonufells með þeim Trausta (t.v.) Snorra (t.h.)
Blesi í hlíðum Spákonufells með þeim Trausta (t.v.) Snorra (t.h.) Ljósmynd/Elín Björk Jónasdóttir

Kann að meta nammið í nestistímanum

Spurð hvort það sé ekkert mál að vera með Blesa í taumi segir hún það ekki alltaf vandkvæðalaust. „Við þurfum alveg að fara á hans hraða eins og okkar. Stundum vill hann ekki halda áfram og þá tökum við hann bara upp og höldum á honum,“ segir Elín Björk. „Svo fær hann líka alls konar nammi eins og harðfisk og rækjur í gönguferðunum, þannig að hann áttaði sig fljótt á að það væri ýmislegt góðgæti að fá í nestistímum.“

Blesi fær líka stundum far með öðrum í fjölskyldunni ef hann verður þreyttur. „Við höfum verið að halda á honum, en svo prufuðum við bakpokann í fyrradag og það gekk ágætlega,“ segir hún.

„Hann er alveg til í að vera þar í svolítinn tíma, eða þangað til hann er búinn að hvíla sig nóg til að halda áfram sjálfur.“ Elín Björk kveðst hafa prufað að setja bakpokann framan á sig þegar þau fóru niður af Spákonufellinu um daginn. „Þá kúrði hann sig niður og sofnaði þar í smástund.“

Blesi á því framtíðina fyrir sér sem göngu- og bakpokaköttur. Raunar stendur hann sig einnig vel í tjaldferðalögum og hefur gist með fjölskyldunni í tjaldi án vandkvæða. Blesi mun því fá að fylgja fjölskyldunni áfram á ferðalögum um ókomin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert