Engin kynferðisbrot tilkynnt Landspítala

Enginn hefur leitað á bráðamóttöku Landspítala um helgina vegna kynferðisofbeldis.
Enginn hefur leitað á bráðamóttöku Landspítala um helgina vegna kynferðisofbeldis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar tilkynningar um kynferðisbrot hafa borist Landspítala vegna útihátíða um helgina, hvorki utan af landi né af hátíðarhöldum í Reykjavík. Þetta staðfestir Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, í samtali við mbl.is. Sömu sögu er að segja af Akureyri. Þar hefur enginn leitað til lögreglu eða bráðamóttöku um helgina vegna kynferðisbrota en lögregla tekur fram að það geti liðið tími þar til þolendur leiti aðstoðar.

Ný neyðarmóttaka fyrir þolendur var tekin í notkun á Landspítala í upphafi árs og segir Hrönn að aðstaða sé þar miklu betri en áður var. Móttakan er hluti af bráðamóttökunni í Fossvogi. Nýja herbergið sé stórt og rúmgott og þangað geti læknar, réttargæslumenn og aðrir komið í stað þess að þolendur þurfi að flakka á milli rýma á spítalanum. Þá er í herberginu aðstaða fyrir bráðalækna ef á þarf að halda. Hrönn segir að verklag á neyðarmóttökunni sé í stöðugri þróun en ekki hafi þó orðið miklar breytingar frá því í fyrra.

Tvö kynferðisbrotamál eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum eftir nóttina.

Nýja herbergi neyðarmóttökunnar í Fossvogi.
Nýja herbergi neyðarmóttökunnar í Fossvogi. Ljósmynd/Landspítali
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert